SEB í vanda vegna sjónvarpsþáttar um peningaþvætti

Johan Torgeby er bankastjóri SEB. Eftir að bankinn greindi frá …
Johan Torgeby er bankastjóri SEB. Eftir að bankinn greindi frá fyrirspurn sænskrar sjónvarpsstöðvar hefur hlutabréfaverð bankans lækkað um nærri 15%. AFP

Hlutabréf sænska bankans SEB lækkuðu um liðlega 15% í morgun vegna frétta um að von væri á fréttaskýringarþætti hjá Sænska ríkissjónvarpinu, SVT, um meinta aðild bankans að peningaþvætti. Að sögn FT greindi SEB frá því að rannsóknarblaðamenn SVT hefðu sent bankanum spurningar sem tengjast „grun um peningaþvætti í Eystrasaltslöndunum“, sem bankinn á að hafa verið viðriðinn með einhverju móti. SEB hefur stundað umtalsverða bankastarfsemi í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Meira er ekki vitað um þátt SVT nema að sjónvarpsstöðin hyggst sýna tvo þætti í vetur þar sem kastljósinu verður beint að bankageiranum. Fer fyrri þátturinn í loftið næstkomandi miðvikudag.

Er skemmst að minnast þeirra vandræða sem Danske Bank og Swedbank lentu í þegar upp komst um umfangsmikið peningaþvætti í gegnum útibú þeirra í Eistlandi. Jafnvirði 200 milljarða evra af grunsamlegum færslum fóru í gegnum banka Danske, og leiddi rannsókn SVT í ljós að um 135 milljarða virði af vafasömum peningsendingum streymdu í gegnum eistneska útibú Swedbank yfir tíu ára tímabil.

Í tilkynningu frá SEB segir að bankinn hafi um langt skeið unnið samviskusamlega að því að tryggja að ferlar og vinnubrögð komi í veg fyrir að bankinn sé notaður til peningaþvættis. „En eins og á við um alla aðra banka getur SEB ekki tryggt með öllu að hann hafi ekki verið notaður til peningaþvættis, eða að það geti aldrei gerst í framtíðinni. Nýjar hættur og áskoranir skjóta sífellt upp kollinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert