Sextán banvænar sekúndur

Nemendur og foreldrar þeirra eftir árásina í gær.
Nemendur og foreldrar þeirra eftir árásina í gær. AFP

Nathaniel Berhow varð sextán ára í gær. Hann hélt upp á daginn með því að mæta með skammbyssu í skólann sinn, Saugus-menntaskólann í Santa Clarita í Kaliforníu, og skjóta tvo samnemendur sína til bana og særa þrjá áður en hann beindi byssunni að eigin höfði. Þetta tók sextán sekúndur. 

Skothríðin hófst klukkan 7:30 þegar nemendur áttu að vera í sinni fyrstu kennslustund þann daginn. Berhow liggur á milli heims og helju á sjúkrahúsi undir eftirliti lækna og lögreglu.

AFP

Einhver hringdi í Neyðarlínuna klukkan 7:38 og tilkynnti um skotárásina. Þegar lögregla kom á vettvang tveimur mínútum síðar fann hún sex nemendur með skotsár liggjandi á svæði fyrir utan skólann. Síðar kom í ljós að einn þeirra, svartklæddur, var morðinginn. Skammbyssan sem var notuð við ódæðið fannst á vettvangi.

Myndir sem birtust í bandarísku sjónvarpi af vettvangi voru áþekkar þeim sem ítrekað hafa birst. Skólalóð þar sem ekki er þverfótað fyrir lögreglu- og sjúkrabifreiðum, nemendur á hlaupum út úr skólanum og áhyggjufullir foreldrar á hliðarlínunni. Þetta er sjöunda skotárásin á bandarískri skólalóð frá því skólaárið hófst, samkvæmt samantekt Washington Post en sú fyrsta sem er banvæn. Yfir 233 þúsund bandarísk skólabörn hafa orðið vitni að byssuofbeldi í skólum sínum frá því árásin var gerð í Columbine High árið 1999.

Syrgjandi nemendur við Saugus High School komu ásamt foreldrum sínum …
Syrgjandi nemendur við Saugus High School komu ásamt foreldrum sínum saman í Central Park í Santa Clarita eftir árásina í gær. AFP

„Við verðum að segja hingað og ekki lengra. Hörmulegir atburðir eins og þessi gerast allt of oft,“ segir lögreglustjórinn í Santa Clarita Valley, Robert Lewis.

Fjórir voru fluttir á Henry Mayo Newhall-sjúkrahúsið í gær, þar á meðal 14 ára drengur og 16 ára gömul stúlka. Þau eru látin. Ein er í lífshættu en gert var að sárum fjórða ungmennisins og það útskrifað. Tvær stúlkur eru á öðru sjúkrahúsi og er hvorug þeirra í lífshættu. Ekki er upplýst um hvar drengurinn sem framdi ódæðið liggur en bæði móðir hans og kærasta hafa verið yfirheyrðar. Samkvæmt upplýsingum frá FBI er ekkert vitað hvað varð til þess að drengurinn ákvað að taka byssu með sér í skólann og skjóta samnemendur sína. 

AFP

Alls eru íbúar Santa Clarita 210 þúsund talsins en borgin er skammt frá Los Angeles. Nemendur Saugus High eru 2.400 en fyrr á þessu ári voru nokkrir nemendur skólans fangelsaðir fyrir ofbeldishótanir og hatursorðræðu á netinu.

Sydney Carzola var í enskutíma þegar allt í einu allt þagnaði inni í skólastofunni. Hún heyrði hvelli að utan. Ekki var neitt óvanalegt við að heyra hávaða að utan enda fylgir því oft hávaði þegar nemendurnir koma inn í skólabygginguna. Hún hélt að einhver hefði blásið upp plastpoka og sprengt. „En síðan heyrðust þrír hvellir strax á eftir,“ segir Carzola í viðtali við Washington Post. Hún vissi að það var skotárás í gangi. 

AFP

Nemendur komu hlaupandi inn í stofuna og lokuðu dyrunum. Þeir drógu hluti fyrir hurðina til þess að koma í veg fyrir að einhver kæmist inn. Einhverjir grétu. Carzola og fleiri veltu fyrir sér hvernig væri hægt að stöðva árásarmanninn. Hún segir það versta og eiginlega það dapurlegasta að hún varð ekki hrædd. Þetta væri eitthvað sem allir þyrftu að ganga í gegnum einhvern tíma á lífsleiðinni og nú væri hún í þeim sporum. 

AFP

Ryan Payad, 14 ára nýnemi, var að koma gangandi að skólanum þegar hann heyrði skothvellina. Síðan skerandi vein. Hann sneri við og hljóp eins hratt og hann gat í burtu. Hann var ekki einn — alls staðar voru nemendur að forða sér í burtu frá skólanum.

Í frétt CNN kemur fram að nemendur hafi flúið inn í skápa í skólanum og hafi falið sig þar. Þaðan sendu þeir skilaboð til vina og ættingja. 

AFP

Þingmaður demókrata í Kaliforníu, Kamala D. Harris, sagði í viðtali við CNN að skotárásir væru orðnar hið nýja norm í skólum landsins. „Börn okkar búa við ótta á hverjum degi. Ótti er þeirra daglega brauð. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því hvers vegna þau eru óttaslegin. Þau óttast að deyja. Þetta er hræðilegt á allan hátt. Þetta er sorglegt, óskiljanlegt, þetta er óþarft og þetta er niðurdrepandi,“ sagði Harris en hún sækist eftir því að verða fulltrúi demókrata í komandi forsetakosningum.

AFP

Fréttir af skotárásinni í Kaliforníu bárust þar sem umræður voru um byssulöggjöfina í öldungadeild Bandaríkjaþings í Washington.

Richard Blumenthal, þingmaður demókrata, var í ræðustól þegar aðstoðarmaður hans rétti honum blað og greindi Blumenthal þingheimi frá skotárásinni. „Hvernig getum við alltaf litið undan? Hvernig getum við neitað að sjá skotárásir á rauntíma krefjast aðgerða af okkar hálfu. Krefjast athygli okkar. Við erum samsek ef við bregðumst ekki við,“ sagði hann.

Washington Post

Los Angeles Times

New York Times

CNN

AFP
AFP
mbl.is