Efnaður fasteignaerfingi sýknaður af morðákæru

Tiffany Li. Saksóknari sagði hana hafa óttast að missa forræði ...
Tiffany Li. Saksóknari sagði hana hafa óttast að missa forræði yfir börnum sínum, en hún neitaði sök í málinu. Ljósmynd/Lögreglan í San Mateo

Tiffany Li, efnaður bandarískur fasteignaerfingi, sem ákærð hafði verið fyrir að myrða barnsföður sinn vegna forræðisdeilu hefur verið sýknuð af kviðdómi. BBC greinir frá.

Saksóknarar höfðu ákært Li fyrir að hafa skipulagt morðið á Keith Green, sem hún átti tvö börn með, og fyrir að hafa svo losað sig við lík hans. Atburðurinn átti sér stað árið 2016 og sögðu saksóknarar hana hafa gert þetta þar sem hún óttaðist að missa forræði yfir dætrum þeirra tveimur.

Mál Li, sem neitaði sök, rataði í bandaríska fjölmiðla eftir að hún var látin laus gegn greiðslu 35 milljón dollara tryggingar. Er þetta eitt hæsta tryggingagjald sem farið hefur verið fram á af bandarískum dómstólum.

Eftir 12 daga íhugun ákvað kviðdómurinn að sýkna Li, en kviðdómendur gátu ekki komið sér saman um úrskurð í máli kærasta hennar Kaveh Bayat og var málið yfir honum því ógilt. Bayat var ákærður fyrir að hafa skotið Green í andlitið eftir að hafa aðstoðað Li við að leiða hann í gildru. Hann neitaði einnig sök.

Fundu blóð í bílnum

„Úrskurðurinn veldur okkur vonbrigðum þar sem við augljóslega teljum sönnunargögnin styðja það að Li sé látin svara fyrir glæpina,“ sagði saksóknarinn Steve Wagstaffe. Hann kvaðst engu að síður virða niðurstöðu kviðdómaranna sem hefðu „lagt allt sitt“ í málið.

Li og Green áttu, líkt og áður sagði í forræðisdeilu um dætur sínar. Þann 28. Apríl 2016 hittust þau á veitingastað í nágrenni heimilis hennar í Hillsborough, sem er með efnameiri samfélögum í Bandaríkjunum. Green snéri aldrei heim af þeim fundi og fannst lík hans í um 80 km fjarlægð hálfum mánuði síðar. Banamein hans var af völdum skotsárs.

Viku síðar voru Li og Bayat handtekinn vegna gruns um að hafa banað Green.

Í réttarhöldunum yfir þeim greindi saksóknari frá því að blóð úr Green hefði fundist í Benz bifreið Li og leifar af byssupúðri hefðu fundist í bílskúr hennar.

Lögfræðingar Li fullyrtu hins vegar að hún hefði ekki haft neitt með dauða hans að gera, fullyrtu þeir að Green væri fórnarlamb mannránstilraunar sem hefði farið úrskeiðis og sem Li tengdist ekki á neinn hátt.

mbl.is