Hætt við aftöku á síðustu stundu

Rodney Reed verður ekki tekinn af lífi á miðvikudag líkt …
Rodney Reed verður ekki tekinn af lífi á miðvikudag líkt og til stóð. AFP

Dómstóll í Texas kom í gærkvöldi í veg fyrir að Rodney Reed verði tekinn af lífi í næstu viku líkt og til stóð. Niðurstaðan er afar óvenjuleg í ríkinu en ekkert ríki Bandaríkjanna beitir dauðarefsingu og framfylgir jafnoft og Texas.

Rodney Reed var dæmdur til dauða fyrir morð sem hann hefur alltaf neitað að hafa framið. Reed hefur setið í 21 ár á dauðadeild en morðið var framið árið 1996. Til stóð að taka hann af lífi 20. nóvember með bannvænni sprautu. Yfir 2,9 milljónir hafa skrifað undir bænaskjal þar sem beðið er um að lífi hans sé þyrmt. Meðal þeirra sem hafa stigið fram og sýnt stuðning eru stjörnur eins ogKim Kardashian West, Rihanna og Gigi Hadid.

Kim Kardashian og systir hennar Kourtney Kardashian eru meðal þeirra …
Kim Kardashian og systir hennar Kourtney Kardashian eru meðal þeirra fjölmörgu sem hafa skrifað undir bænaskjalið. AFP

Verjendur Reed segja að ný gögn í málinu sýni fram á sakleysi hans en Reed var dæmdur fyrir morðið á 19 ára stúlku, Stacey Stites. Það var áfrýjunardómstóll Texas sem kom í veg fyrir fyrirhugaða aftöku í gær. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að náðunar- og endurskoðunarnefnd Texas-ríkis mælti með því að aftökunni yrði frestað í 120 daga. Nefndin hafnaði aftur á móti beiðni fangans um að breyta dóminum í lífstíðarfangelsi, segir í frétt BBC.

New York Times fjallar ítarlega um málið í dag og þar kemur fram að dómarar við áfrýjunardómstólinn hvetji dómstólinn sem hefur mál Reed til meðferðar að fara yfir málið að nýju en undanfarna mánuði hafa fram ný gögn í málinu og vitni stigið fram sem segir unnusta Stites hafa myrt hana. 

215 fangar á dauðadeild í Texas

Reed er 51 árs gamall og hefur því dvalið tæplega helming ævinnar á dauðadeild. Alls eru 215 fangar á dauðadeild í Texas.

„Tárin streyma niður kinnarnar,“ sagði Andrew Mac Rae, einn af verjendum Reeds þegar hann frétti af niðurstöðu náðunarnefndarinnar. Málið hefur vakið gríðarlega athygli vestanhafs og ekki síst fyrir þær sakir að þingmenn repúblikana ásamt þekktum stjörnum hafa hvatt ríkisstjóra og dómstóla að þyrma lífi Reed. 

Rihanna hefur tjáð sig opinberlega um málið.
Rihanna hefur tjáð sig opinberlega um málið. AFP

Stacey Sites var kyrkt í Bastrop í Texas árið 1996 og líki hennar komið fyrirí vegkanti á afskekktum slóðum. Saksóknarar segja að henni hafi verið nauðgað og var handtaka Reeds aðallega byggð á lífsýnum sem fundust á líkama hennar.

Unnustinn var lögreglumaður

Reed heldur því fram að hann og Stites hafi átt í ástarsambandi sem skýri hvers vegna DNA-sýni hans fundust á Sites. Verjendur hans segja að þeir hafi vitnisburð um að unnusti hennar, Jimmy Fennell, sem er fyrrverandi lögreglumaður, hafi drepið hana. Fennell var látinn laus úr fangelsi í fyrra fyrir að hafa rænt konu sem hann hafði samskipti við þegar hann var á vakt í lögreglunni. Konan segir að hann hafi nauðgað henni þegar hann hélt henni fanginni árið 2008. Fennell játaði að hafa rænt konunni. 

Ted Cruz er þingmaður Texas-ríkis.
Ted Cruz er þingmaður Texas-ríkis. AFP

Þoldi ekki að hún var með svörtum manni

Maður sem sat í fangelsi með Fennell hefur borið vitni eiðsvarinn þar sem hann segir að hann hafi heyrt Fennell viðurkenna að hafa drepið Stites vegna þess að hún hélt framhjá honum með svörtum manni. Reed er svartur á hörund. Lögmaður Fennells segir að skjólstæðingur hans neiti því að hafa drepið Stites. 

Það sem gerir mál Reed óvenjulegt er hversu víðtækur stuðningurinn er við að þyrma lífi hans. Ekki síst meðal kjörinna fulltrúa repúblikana, segir í frétt New York Times. Margir þeirra hafa hingað til ekki viljað ræða sekt eða sakleysi fanga á dauðadeild.

Meðal þeirra er öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz en hann er þingmaður Texas-ríkis. Hann hvatti náðunar- og endurskoðunarnefndina til þess að fara yfir mál Reed að nýju og hlýða á nýjan vitnisburð í málinu. Einn þeirra sem hafa skrifað undir er fulltrúadeildarþingmaður repúblikana sem var saksóknari í Bastrop, þar sem morðið var framið, þegar Stites var myrt. 

Alls hafa 16 þingmenn, átta demókratar og átta repúblikanar, í Texas sent bréf til ríkisstjórans þar sem þeir lýstu stuðningi við að lífi Reed yrði þyrmt. Í bréfinu er vísað til ákvörðunar frá árinu 1998 er George W. Bush, sem var ríkisstjóri á þeim tíma, um að þyrma lífi Henry Lee Lucas og breyta dómi yfir honum í lífstíðarfangelsi. 

Frétt Guardian

mbl.is