Lögreglumaður tæklar 15 ára útlimalausan dreng

Bandarískur lögregumaður að störfum. Mynd úr safni.
Bandarískur lögregumaður að störfum. Mynd úr safni. AFP

Lögregluyfirvöld í Pima sýslu í Arizona hafa nú efnt til rannsóknar á starfi lögreglu eftir að lögreglumaður náðist á myndband tækla 15 ára dreng sem hefur hvorki hendur né fætur. NBC sjónvarpsstöðin greinir frá þessu og segir lögmaður drengsins atvikið bæði  „óhugsandi og hræðilegt“.

„Ég við biðja fólk að ímynda sér að þetta væri þess eigið barn,“ sagði lögmaðurinn Joel Feinman.

Myndbandið er átta mínútna langt og byrjar á því að drengurinn hrópar þegar lögreglumaðurinn heldur honum föstum við eldhúsgólfið á sambýli í Tuscon. Annar drengur á sambýlinu myndaði atvikið á síma sinn, en höfði hans var síðar ýtt upp að veggnum.

„Þessir drengir eru þegar skaddaðir. Það er ástæða þess að þeir eru á sambýli. Þetta eru börn sem samfélagið hefur yfirgefið,“ sagði Feinman sem er lögfræðingur beggja drengjanna.

Atvikið átti sér stað í lok september eftir að starfsmaður á sambýlinu kallaði til lögreglu til að tilkynna að hinn 15 ára gamli Immanuel hefði fellt ruslatunnu. Immanuel sem var yfirgefinn af fjölskyldu sinni var í uppnámi eftir að hafa verið vikið úr skóla.

Lögreglumaðurinn sem fór í útkallið taldi Immanuel vera að valda ónæði og reyndi að hafa hemil á honum.

Myndbandið sýnir lögreglumanninn, sem er hvítur, krjúpa á gólfinu og læsa höfði hins svarta Immanuel. Drengurinn kemst í uppnám við þetta og heyrist biðja lögreglumanninn um að sleppa sér. Lögreglumaðurinn virðist losa takið eitthvað og reynir Immanuel þá að komast í burt. Lögreglumaðurinn bregst við því með tæklingu sem fellir hann niður á gólfið við ísskápinn þar sem hann þrýstir á hann með líkama sínum. Immanuel heyrist hrópa og lögreglumaðurinn leyfir honum fyrir rest að reisa sig upp og spyr þá hvort eitthvað sé að honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert