Rauð viðvörun í gildi

AFP

Rauð viðvörun er í gildi í Feneyjum en von er á frekari flóðum í borginni í dag. Þar er nú mjög hvasst. Neyðarástandi var lýst yfir í borginni fyrr í vikunni. 

Borgarstjórinn í Feneyjum, Luigi Brugnaro, lét loka Markúsartorgi í gær vegna þess að sjór gekk við torgið. Sagði hann að um neyðarráðstöfun sé að ræða til þess að koma í veg fyrir stórslys. 

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, segir að ríkisstjórnin hafi samþykkt að setja þegar í stað 20 milljónir evra, jafnvirði 2,7 milljarða króna, í sérstakan sjóð sem á að nota í brýnustu aðgerðir vegna flóðanna. Íbúar húsa sem skemmdust fá þegar í stað allt að 5.000 evrur, sem svarar 690.000 krónum, og eigendur veitingahúsa og verslana geta fengið allt að 20.000 evrur, 2,8 milljónir króna, og sótt um meiri aðstoð síðar. 

„Við höfum eyðilagt Feneyjar, við erum að tala um einn milljarð evra í tjón og það er bara tjónið í gær, ekki í dag,“ sagði Brugnaro í gær.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert