Sameinumst gegn þeim sem stela frá okkur

Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, sagði af sér í vikunni.
Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, sagði af sér í vikunni. Ljósmynd/Sjávarútvegsráðuneyti Namibíu

Mótmælt var framan við skrifstofu namibísku spillingalögreglunnar (ACC) á föstudag vegna Samherjamálsins. Samkvæmt frétt namibísku NBC sjónvarpsstöðvarinnar höfðu lögfræðingar, opinberir embættismenn, stjórnmálamenn og aðgerðarsinnar gert sér ferð víða að úr landinu til að taka þátt í mótmælunum.

Krefjast mótmælendur þess að þeir ráðamenn sem sakaðir hafa verið um spillingu verði handteknir hið fyrsta, hald lagt á eignir þeirra og bankainnistæður frystar.

„Handtakið þá, handtakið þá, eða við handtökum þá sjálf,“ sagði einn mótmælendanna. „Við erum að sameinast gegn þeim sem stela frá okkur og kynslóðum framtíðar,“ sagði annar. „Fólk hefur misst vinnuna vegna sjálfselsku þeirra,“ sagði sá þriðji.

Greint hefur verið frá því að Bernardt Esau sjávarútvegsráðherra Namibíu og Sacky Shangala dómsmálaráðherra landsins sögðu af sér í vikunni eftir að ljóstrað var upp um greiðslur Samherja.

Að því er fram kemur í frétt NBC þá vilja mótmælendur að Paulus Noa, yfirmaður ACC segi einnig af sér, en Noa segja þeir vera vanhæfan og hafa sýnt sig ófæran um að taka á spillingunni.

mbl.is