Skutu á hundrað rútur múslima

Starfsmaður heldur á kjörkassa eftir kosningarnar. Kjörkassar vory fluttir á …
Starfsmaður heldur á kjörkassa eftir kosningarnar. Kjörkassar vory fluttir á aðal talningasvæðið eftir að kjörstöðum var lokað. AFP

Stuttu áður en kjörstaðir opnuðu í Colombo, höfuðborg Sri Lanka, í dag skutu vopnaðir menn á rútur þar sem farþegarnir voru flestir múslimar. Enginn særðist eða féll í árásinni.

Forsetakosningar fóru fram í Sri Lanka í dag en sjö mánuðir eru síðan strangtrúaðir múslimar stóðu fyrir sprengjuárásum á hótel og kirkjur. Þá lést fjöldi fólks. Mikil spenna hefur verið á milli trúarhópa síðan þá og hefur umræða um kólnun hagkerfisins verið hávær. 

Litið er á minnihlutahópa tamíla og múslima í Sri Lanka sem lykilkjósendur í kosningunum en atkvæði gætu staðið nokkuð tæpt. Skotárásin átti líklega að vera til þess fallin að hindra komu múslima á kjörstað.

Segir kosningarnar samt friðsælar

Mahinda Deshapriya, kosningastjóri, sagði við fréttamenn í dag að skotárásin hafi líklega ekki komið í veg fyrir að þolendur árásarinnar hafi skilað sér á kjörstað en rúmlega 80 prósent af þeim tæplega 16 milljón manns sem hafa kosningarétt í Sri Lanka eru sagðir hafa nýtt kosningarétt sinn. Það er einu og hálfu prósenti minna en í síðustu kosningum sem voru haldnar árið 2015. 

„Í samanburði við fyrri kosningar þá eru þessar kosningar einar þær friðsælustu sem haldnar hafa verið í landinu,“ sagði Deshapriya við fréttamenn eftir að kosningunni lauk klukkan fimm að staðartíma.

Kjósendur í röð á kjörstað. Kjörsókn var um 80%.
Kjósendur í röð á kjörstað. Kjörsókn var um 80%. AFP

Fengu vopnaða fylgd

Árásarmennirnir sem réðust á múslimana í rútunni kveiktu í dekkjum á veginum og settu upp vegatálma áður en þeir skutu á rúturnar sem voru um hundrað talsins. 

Þolendurnir fengu vopnaða fylgd til síns heima eftir að hafa kosið. 

Gotabaya Rajapaksa, fyrrum varnarmálaráðherra og bróðir Mahinda Rajapaksa, fyrrverandi forseta, og Sajith Premadasa, frambjóðandi Sameinaða þjóðarflokksins (UNP), eru tveir líklegustu sigurvegarar kosninganna. 35 manns buðu sig fram til forseta og er það met í forsetakosningum í Sri Lanka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert