112 ára gáta hugsanlega ráðin

Fyrsta ljósmynd sem tekin var í lit í Noregi, árið …
Fyrsta ljósmynd sem tekin var í lit í Noregi, árið 1907. Nú hefur gátan um skíðamanninn unga líklega loksins verið leyst, 112 árum síðar. Ljósmynd/Harald Renbjør/Ljósmyndasafnið í Levanger

„Við vitum hvenær hún er tekin og að hún er tekin á Brusve í Levanger [í Þrændalögum]. En lengi höfum við brotið heilann um persónu unga skíðakappans,“ segir Nils Torske, einn starfsmanna Ljósmyndasafnsins í Levanger, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Umræðuefnið er ljósmynd og ekki bara einhver ljósmynd heldur fyrsta ljósmyndin í lit sem tekin var í Noregi svo vitað sé, árið 1907. Núna, á 112 ára afmæli myndarinnar, telja þeir ljósmyndasafnsmenn sig hafa leyst gátuna um hver standi á skíðunum, einu staðreyndina varðandi þessa sögulegu ljósmynd sem hingað til hefur ekki verið þekkt.

„Ljósmyndarinn er Harald Renbjør og nú höllumst við helst að því að þetta sé yngri bróðir hans,“ segir Torske. Hann segir starfsfólk safnsins svo sem ekkert hafa legið í rannsóknum á drengnum á myndinni. Nú standi safnið hins vegar fyrir sýningu á ljósmyndum Renbjørs og hafi þeim safnmönnum þá hlaupið kapp í kinn.

Þetta er ekki virkasti landabruggari Noregs á öndverðri 20. öldinni …
Þetta er ekki virkasti landabruggari Noregs á öndverðri 20. öldinni heldur efnafræðingurinn og ljósmyndarinn Harald Renbjør í vinnustofu sinni, frumkvöðull litljósmyndunar í Noregi. Ljósmynd/Ljósmyndasafnið í Levanger

Torske segir safninu hafa borist fjöldi ábendinga eftir að sýningin hófst og NRK fjallaði um ljósmyndina í síðustu viku og nú bendi flest til þess að drengurinn sé umræddur litli bróðir. Sá hafi verið fæddur 1898 og því verið níu ára þegar myndin var tekin sem vel geti staðist. 

„Það er heldur ekkert undarlegt að þetta hafi verið einhver sem Renbjør þekkti vel vegna tímans sem það tók að taka þrílitamynd [n. trefargebilde, e. three-color photo, ljósmyndaaðferð sem skoski eðlisfræðingurinn James Clerk Maxwell lýsti fyrst í ritgerð árið 1855]. Myndefnið varð því að sýna þolinmæði,“ útskýrir Aud Åse Reitan, safnstjóri ljósmyndasafnsins.

Skilja eftir sig á þriðja tug þúsunda mynda

Ljósmyndarinn, Harald Renbjør, síðar efnafræðingur og frumkvöðull litljósmyndunar í Noregi, hefur ekki verið meira en á átjánda ári þegar hann tók myndina, þá nemi hjá hinum þekkta ljósmyndara Anton Røske í Þrándheimi. Renbjør starfaði lengi sem efnafræðikennari en fékkst við ljósmyndun samhliða því og lét svo alfarið af kennslu til að taka við fjölskyldufyrirtækinu árið 1926, Foto- og musikkforretningen í Levanger sem sinnti meðal annars ljósmyndaframköllun fyrir almenning.

Þarna hófst ferill Renbjør sem ljósmyndara fyrir alvöru og tók Per sonur hans ástríðuna eftir föður sínum. Eftir þá feðga liggja 3.300 litljósmyndir, í þeim hópi þær fyrstu sem teknar voru í Noregi, og 23.000 í svarthvítu. Feðgarnir þróuðu sjálfir og smíðuðu ýmsan búnað til að betrumbæta gæði framköllunar ljósmynda og eftir þá liggur nú, auk ljósmyndanna, fjöldi myndavéla, framköllunarstofa, bókasafn, teikningar, málverk, hljóðupptökur og fleira. Allt þetta varðveitir Ljósmyndasafnið í Levanger.

Adresseavisen (líklega fyrsta litmynd sem tekin er í Þrándheimi eftir Renbjør frá 1907)

NRK (eldri umfjöllun um myndina, frá 2009)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert