Markúsartorgi lokað að nýju

AFP

Há sjávarstaða ógnar enn íbúum í Feneyjum og hefur Markúsartorgi verið lokað að nýju vegna flóða. Mikið rignir á Ítalíu í dag og hafa verið gefnar út viðvaranir í Flórens og Písa vegna þeirra. 

Von er á að sjávarstaðan fari í 160 sentímetra í Feneyjum í dag sem Ítalir skilgreina sem acqua alta — háa sjávarstöðu. Á þriðjudag fór sjávarstaðan enn hærra eða í 187 cm sem er það hæsta í 53 ár í Feneyjum. Borgarstjórinn í Feneyjum, Luigi Brugnaro, varar fólk við hættulegum aðstæðum í dag á Twitter. Hann metur að tjónið sem orðið hefur vegna sjávarflóða nemi einum milljarði evra, yfir 136 milljörðum króna. 

AFP

„Markúsartorg er lokað. Öryggið sett í fyrsta sæti,“ skrifar hann á Twitter á sama tíma og sjórinn byrjaði að flæða yfir borgina enn einu sinni. 

Í Toskana hefur forseti héraðsins, Enrico Rossi, varað við þvíð að Arno flæði yfir bakka sína og unnið er að því að bæta flóðavarnir árinnar í Písa í öryggisskyni. Svipaða sögu er að segja frá Flórens en Arno rennur í gegnum miðborg Flórens. Árið 1966 létust um 100 manns í Flórens í miklum flóðum og eyðilögðust þúsundir verðmætra listaverka. Borgaryfirvöld hafa beðið íbúa Flórens um að halda sig fjarri bökkum árinnar í dag. 

Á Markúsartorgi í morgun.
Á Markúsartorgi í morgun. AFP
mbl.is