„Það virðist ekki vera almennt traust á kosningum“

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, greiðir atkvæði sitt.
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, greiðir atkvæði sitt. AFP

„Það virðist ekki vera almennt traust á kosningum hér og það er ekki áberandi að hér séu kosningar, hvergi eru til dæmis auglýsingaspjöld úti á götum. Þetta er öðruvísi en við eigum að venjast,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er við kosningaeftirlit í Minsk í Hvíta-Rússlandi sem fulltrúi Íslands fyrir Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ Evr­ópu, ÖSE.

Í kosningunum er kosið um 110 sæti í neðri deild þingsins og býður þriðjungur þingmanna sig fram aftur. Síðustu kosningar fóru fram 2016. Allir helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar og allir þingmenn hennar að frátöldum tveimur hafa verið sviptir kjörgengi. Forseti landsins, Alexander Lukashenko, hefur verið við völd í 25 ár, frá árinu 1994. Hann er gjarnan kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“. Þess má geta að í síðustu kosningum náði einn þingmaður stjórnarandstöðunnar kjöri og var hann sá fyrsti í 20 ár. 

Til að mynda voru ekki allir frambjóðendur sem gáfu kost á sér samþykktir. Kosningaþátttaka í þingkosningum hefur ekki verið mikil síðustu ár og telja margir þær ekki skila neinu því þingið ræður mjög litlu en forsetinn ræður öllu. „Einn sem ég talaði við sagði að þingið og kosningarnar væru grín,“ segir Bryndís.  

Túlkurinn sem Bryndís er með sagðist sjálf ekki ætla að kjósa því hún taldi það algjörlega tilgangslaust. Yngra fólk á hennar aldri væri sama sinnis. Hins vegar kaus bílstjóri Bryndísar og taldi hann mikilvægt að nýta rétt sinn þrátt fyrir að hann hefði vantrú á kosningunum.  

Hægt var að greiða atkvæði utankjörfundar fimm daga fyrir kosningarnar sjálfar. Þar mældist kosningaþátttakan 30%. „Mér finnst það mjög mikið,“ segir Bryndís en hún tekur fram að ekki megi tjá sig um kosningarnar fyrr en þau hafa skilað skýrslu um þær á morgun.  

Niðurstöður kosninganna liggja fljótlega fyrir. Talið er beint upp úr kössunum en ekki er farið með kjörkassana á annan stað eins og gert er í kosningum hér.  

Auk Bryndísar eru Birgir Þórarinsson á vegum Evrópuráðsþingsins og Kolbeinn Óttarsson Proppé á vegum utanríkisráðuneytisins. Hlutverk þeirra er meðal annars að fara á milli mismunandi kjörstaða og athuga hvort kjörseðlar líti út fyrir að vera í lagi, athuga hvort kjörkassinn sé innsiglaður, fylgjast með fólki kjósa og fleira þess háttar. Þess má geta að erlend kosningaeftirlitsteymi hafa dæmt kosningar þar í landi síðustu ára ólýðræðislegar. Ekki er búist við að breyting verði þar á eftir þessar kosningar.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert