Landnemabyggðir fari ekki gegn alþjóðalögum

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandarikjanna, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandarikjanna, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. AFP

Bandaríkjastjórn telur landnemabyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum ekki lengur í ósamræmi við alþjóðalög. Mike Pompeo utanríkisráðherra staðfesti þessa stefnubreytingu Bandaríkjastjórnar fyrir skemmstu.

AP-fréttaveitan greindi fyrst frá málinu í dag áður og sagði frá því að Pompeo ætlaði að „mýkja“ afstöðu Bandaríkjastjórnar gagnvart landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum með því að hætta að styðjast við lögfræðiálit bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 1978.

Í því áliti segir að byggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum séu „ósamræmanlegar við alþjóðalög“ og hefur það verið opinber stefna Bandaríkjanna gagnvart málinu.

Fleiri fjölmiðlar fengu staðfest að stefnubreytingin stæði til og svo greindi Pompeo frá henni fyrir skemmstu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington.

Pompeo sagði að ríkisstjórnin hefði farið yfir allar hliðar málsins og komist að því að landnemabyggðir Ísraela innan Vesturbakkans væru í sjálfu ekki brot á alþjóðalögum. Utanríkisráðherrann sagði að það væri úrlausnarefni Ísraela og Palestínumanna að skilgreina lagalega stöðu Vesturbakkans.

mbl.is