Páfi heimsækir Nagasaki og Hiroshima

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi mun heimsækja japönsku borgirnar Nagasaki og Hiroshima, sem báðar urðu fyrir kjarnorkuárás í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, á ferð sinni um Asíu sem hefst á morgun. Talsmaður páfagarðs segir að páfi muni biðla til þjóða heims um að takmarka kjarnorkuvopnaeign sína.

Hann hefur áður látið í ljós sterkar skoðanir á notkun kjarnorkuvopna. Í viðtali við japanska sjónvarpsstöð í september síðastliðnum sagði hann að notkun slíkra vopna væri siðferðislega röng.

Heimsækir búddahof

Taíland verður fyrsti viðkomustaður hins 82 ára gamla páfa í Asíuferðinni, en síðan liggur leiðin til Japan. Hlutfall kaþólskra í þessum tveimur löndum er innan við 0,6%, en páfi vonast eftir að eiga líflegar samræður um trúarleg málefni. Hann mun einnig hitta að máli fólk sem lifði af jarðskjálfann í Japan árið 2011 og flóðbylgjuna sem fylgdi í kjölfarið.

Frans páfi segir Taíland vera „friðarboða“ sem hafi boðað sameiningu og samstarf um alla Suðaustur-Asíu og lofaði það alþjóðasamfélag sem þar þrífst. Í skilaboðum til taílensku þjóðarinnar sagðist páfi vonast til að styrkja vináttubönd sín við búddista, en meðal þess sem hann mun taka sér fyrir hendur þar í landi er að heimsækja búddahof.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert