Skotnir til bana úti í garði

Bandarískur lögreglubíll.
Bandarískur lögreglubíll. AFP

Fjórir voru skotnir til bana og sex til viðbótar særðust þegar þeir horfðu á íþróttaleik í bakgarði heimilis í Kaliforníu í gærkvöldi.

„Þrír létust á vettvangi,“ sagði Michael Reed aðstoðaryfirlögregluþjónn og bætti við að sá fjórði hefði verið fluttur á sjúkrahús en látist þar.  

Að minnsta kosti ein manneskja hóf skothríð á hóp fólks, um 35 manns, sem hafði safnast saman fyrir utan heimili í borginni Fresno, um 320 kílómetra norður af Los Angeles.

Allir þeir sem létust og særðust voru karlmenn á bilinu 25 til 35 ára.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldum fórnarlambanna. Þetta er glórulaust ofbeldi,“ sagði Reed. „Við gerum allt sem við getum til að koma hinum seku á bak við lás og slá.“

Hann sagði óljóst hversu margir hefðu gert árásina og sagði ekkert benda til þess að hún tengist stríði á milli glæpagengja.

mbl.is