Fæðingarstaður Hitlers verður lögreglustöð

Húsið í bænum Braunau þar sem Adolf Hitler fæddist.
Húsið í bænum Braunau þar sem Adolf Hitler fæddist. AFP

Húsinu í bænum Braunau í Austurríki, hvar nasistaforinginn Adolf Hitler fæddist árið 1889, verður breytt í lögreglustöð. Innanríkisráðuneyti landsins greindi frá þessu í dag en lengi hefur verið deilt um hvað gera eigi við húsið.

Fram kemur í frétt AFP að austurrískum stjórnvöldum sé mjög umhugað um að húsið verði ekki að helgum stað fyrir nýnasista. Stjórnvöld tóku húsið í sína umsjá árið 2016 eftir langvinnar lagaþrætur við eigendur þess sem lauk loks með því að Hæstiréttur Austurríkis úrskurðaði hvaða bætur eigendurnir ættu rétt á að fá fyrir húsið.

Haft er eftir Wolfgang Peschorn innanríkisráðherra að með því að gera húsið að lögreglustöð ættu þau skilaboð að komast til skila með skýrum hætti að ekki yrði í boði að húsið yrði notað til að minnast nasismans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert