Fræðimönnum sleppt úr haldi talibana

Prófessorarnir Timothy Weeks og Kevin King hafa verið í haldi …
Prófessorarnir Timothy Weeks og Kevin King hafa verið í haldi talibana frá því að þeim var rænt fyrir utan Bandaríska háskólann í Kabúl árið 2016. Skjáskot úr myndbandi frá talibönum

Tveimur fræðimönnum, Bandaríkjamanni og Ástrala, hefur verið sleppt úr haldi talibana í Afganistan. Mennirnir höfðu verið gíslar í meira en þrjú ár og var þeim sleppt í fangaskiptum á milli stjórnvalda landsins og talibana. Frá þessu greindu afganskir embættismenn í dag.

Fræðimennirnir, Timothy Weeks og Kevin King, voru báðir prófessorar við Bandaríska háskólann í Kabúl. Þeim var rænt af talibönum fyrir utan húsakynni skólans árið 2016. Þremur foringjum Talibana var sleppt úr fangelsi í þeirra stað, samkvæmt frétt Reuters um málið.

Síðast sást til gíslanna tveggja árið 2017, er talibanar birtu myndband af þeim. Þar virtust þeir í slæmu ásigkomulagi og báðu ríkisstjórnir landa sinna um að vinna að lausn málsins svo þeir mættu sleppa úr haldi.

Ástralar og Bandaríkjamenn gleðjast

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, segir í yfirlýsingu að Ástralar gleðjist yfir þessum tíðindum. Hvíta húsið í Washington hefur einnig sent frá sér tilkynningu þar yfirlýsingu þar sem fram kemur að mennirnir tveir séu í höndum bandarískra yfirvalda og hljóti nú viðeigandi læknisaðstoð.

„Við vonumst til þess að mennirnir nái sér að fullu,“ sagði Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, í yfirlýsingunni. Hún sagði mennina hafa gengið í gegnum mikla raun og óskaði þeim velfarnaðar.

mbl.is