Gagnaleki úr banka á aflandseyju staðfestur

AFP

Útibú bankans Cayman National Bank á eyjunni Mön hefur staðfest að tölvuþrjótur eða –þrjótar hafi brotist inn í bankann.  

„Cayman National Bank var á meðal nokkurra banka sem ráðist var á af sama aðilanum,“ sagði í yfirlýsingu sem bankinn sendi Vice

Fram kom á síðu fjölmiðilsins í gær að tölvuþrjótur eða -þrjótar að nafni Phineas Fisher hefðu stolið peningum og skjölum úr banka og boðið öðrum tölvuþrjótum 100 þúsund dali fyrir að brjótast inn í tölvukerfi annarra banka í pólitísku skyni.

Í yfirlýsingu bankans kemur fram að lögreglurannsókn sé í gangi og að bankinn eigi í samstarfi við lögregluna til að komast að því hver eða hverjir stóðu á bak við verknaðinn.

„Ég stal frá banka og gaf peninginn,“ sagði í orðsendingu frá Phineas Fisher þar sem einnig kom fram að brotist hefði verið inn í bankann árið 2016. „Að hakka sig inn í tölvur er kraftmikil leið til að berjast gegn efnahagslegu misrétti.“

Fram kemur í yfirlýsingu bankans að hvorki hann né viðskiptavinir hans hefðu orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.

Phineas Fisher sýndi fram á stolin gögn og tölvupósta frá bankanum á vefsíðunni Distributed Denial of Secrets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert