Hundar drápu ólétta konu í Frakklandi

Maður á gangi með hund sinn í skógi. Myndin tengist …
Maður á gangi með hund sinn í skógi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Ólétt kona var drepin af hundum er hún var á göngu með sína eigin hunda í skógi í norðurhluta Frakklands síðasta laugardag. Frá þessu greindu rannsakendur í dag, en lík konunnar fannst við bæinn Villers-Cotterets, sem er um 90 kílómetrum norðaustan við París. Málið er rannsakað sem „manndráp með hundaárás“, samkvæmt frétt AFP.

Konan hafði verið á göngu í skóginum á sama tíma og menn voru þar við dádýraveiðar með veiðihunda með sér. Krufning sýndi fram á að henni hefði blætt út vegna fjölda hundabita í útlimi og höfuð, samkvæmt Frederic Trinh, saksóknara í málinu.

Saksóknarinn greindi einnig frá því að 93 hundar hefðu verið teknir til rannsóknar vegna málsins, til þess að komast að því hvaða hundar hefðu drepið konuna. Þeirra á meðal eru hluti veiðihundanna og fimm hundar konunnar sjálfrar.

Eiginmaður konunnar fann lík hennar í skóginum, en hún hafði áður hringt í hann og látið vita af því að „ógnandi hundar“ væru í grennd við hana.

mbl.is