Kröfur Trumps „óviðeigandi“

Alexander Vindman undirofursti fyrir þingnefndinni í dag.
Alexander Vindman undirofursti fyrir þingnefndinni í dag. AFP

Háttsettur bandarískur embættismaður, Alexander Vindman undirofursti, sagði fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í dag að símtal Donalds Trump Bandaríkjaforseta við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu, fyrr á árinu þar sem Trump óskaði eftir því að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, og sonur hans Hunter, yrðu rannsakaðir af úkraínskum yfirvöldum, hefði verið „óviðeigandi“.

Vindman kom fyrir nefndina vegna rannsóknar Bandaríkjaþings á því hvort ástæða sé til þess að kæra Trump til embættismissis. Undirofurstinn sagði forsetann hafa sett fram óviðeigandi pólitískar kröfur í garð Zelenskís.

Rannsóknin beinist að því hvort Trump hafi misbeitt valdi sínu sem forseti með því að setja rannsókn á Bidenfeðgum sem skilyrði fyrir áframhaldandi hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Úkraínu.

Vindman, sem er hluti af þjóðaröryggisteymi Hvíta hússins og sérfræðingur í málefnum Úkraínu, sagðist hafa haft áhyggjur af þessum kröfum Trumps. Hann hefði greint lögfræðingum þjóðaröryggisteymisins frá málinu af skyldurækni. Vindman var einn þeirra embættismanna sem urðu vitni að símtali forsetanna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert