Svíar fella niður rannsókn á Assange

Saksóknarar í Svíþjóð hafa fellt niður rannsókn á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem var sakaður um nauðgun þar í landi árið 2010. 

Assange, sem hefur ávallt neitað sök, komst hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar þegar hann fékk skjól í sendiráði Ekvador í London árið 2012, en þar dvaldi hann í sjö ár. 

Í apríl á þessu ári var Assange gert að yfirgefa sendiráðið og var hann í framhaldinu dæmdur í tæplega árs fangelsi fyrir að brjóta gegn skilorði. Hann situr nú á bak við lás og slá í Belmarsh-fangelsinu í London. 

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Saksóknaraembættið í Svíþjóð segir í yfirlýsingu að aðstoðarríkissaksóknarinn Eva-Marie Persson hafi tekið þessa ákvörðun. Ástæðan sé að þar sem svo langt er liðið frá atburðunum séu sönnunargögnin orðin of veikburða til að ná fram sakfellingu, að því er segir á vef BBC. 

Embættið segir enn fremur að ákvörðunin hafi verið tekið eftir að rætt var við sjö vitni sem tengjast málinu. 

Eva-Marie Persson greindi frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í dag.
Eva-Marie Persson greindi frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í dag. AFP
mbl.is