„Eldurinn fer ekkert í manngreinarálit“

„Það er eiginlega óverandi úti. Í dag var 40 stiga hiti og heilmikill reykur í loftinu og þetta verður svona áfram,“ segir Sólveig Einarsdóttir sem býr í Nýja Suður-Wales-fylki (NSW) í Ástralíu þar sem miklir gróðureldar hafa logað undanfarnar vikur.

Í dag loguðu gróðureldar á 50 stöðum í fylkinu og hafði slökkviliði ekki tekist að ná stjórn á 24 þeirra, að því er Guardian greindi frá. Aðaleldhættan þennan daginn var hins vegar í Vestur- og Suður-Ástralíu og var skólum lokað víða vegna elds og reyks. New South Wales er þó það fylki Ástralíu sem hefur orðið langverst úti í gróðureldunum það sem af er sumri. 

Sólveig, sem hefur verið búsett í Ástralíu í 30 ár, býr ásamt áströlskum eiginmanni á bóndabænum Sólheimum í Narrabri.  Þegar blaðamaður nær í Sólveigu loga gróðureldar í þjóðgarðinum Mount Kaputar sem er í um 20 km fjarlægð frá heimil hennar. „Þeir segjast hafa stjórn á þeim, en ef vindáttin breytist þá fer allt í gang aftur,“ segir hún. „Það er spáð mikilli hættu á morgun og hinn.“ Hún bætir við að þetta verði bara „svona sumar“.

Sólveig Einarsdóttir ræktar nautgripi á bænum Sólheimum í Narrabri í …
Sólveig Einarsdóttir ræktar nautgripi á bænum Sólheimum í Narrabri í Ástralíu. Hún, líkt og aðrirð íbúar, er viðbúin að yfirgefa Narrabri með skömmum fyrirvara leiti eldarnir þangað. Ljósmynd/Sonja Pétursdóttir

Verstu þurrkar sem hann hefur upplifað

„Ég er gift Ástrala og hann er ýmsu vanur, en þetta eru verstu þurrkar sem hann hefur upplifað,“ segir Sólveig, sem man heldur ekki eftir öðru eins tíðarfari.

Ástralir eru ekki óvanir því að gróðureldar fylgi sumarhitunum, en þeir hafa ekki verið jafn snemma á ferðinni og nú. Hitinn er líka óvenju mikill þetta sumarið, en hann mælist almennt ekki um og yfir 40 gráður fyrr en í desember. Í dag fór hitinn hins vegar víða yfir 40 gráðurnar. „Það tilheyrir að það séu einhverjir eldar og þurrkar, en ekki svona. Þetta er alveg ólýsanlegt.“

Sólveig viðurkennir að hún sé svolítið óróleg yfir eldunum.  „Það hafa verið meiri eldar í héraðinu New England í dag, en sonur minn býr þar í borginni Armidale. Sú borg er í um fjögurra klukkustunda akstursfjarlægð frá Narrabri. „Hann hringdi í dag og sagði að það hefði ekki verið verandi úti.“

Sydney var þá í gær verið með menguðustu borgum í heimi, en þykk reykjarþoka lá þá yfir borginni. Sólveig bætir við að þar til í ár hafi verið óþekkt að gróðureldar loguðu svo nærri Sydney.

Í Narrabri hafa íbúar með sér góða samvinnu vegna eldanna, en næsti þéttbýliskjarni sem er á stærð við Selfoss er í um hálftíma akstursfjarlægð. „Það kemur upp samkennd af því að eldurinn fer ekkert í manngreinarálit,“ segir hún. 

Íbúi í Nabiac virðir fyrir sér rústir heimilis síns eftir …
Íbúi í Nabiac virðir fyrir sér rústir heimilis síns eftir gróðureldana. Til þessa hafa sex hafa farist í eldunum og 577 heimili hafa orðið eldunum að bráð AFP

Tilbúin að fara

Íbúar Sólheima, líkt og aðrir, eru líka undir það búnir að þurfa að yfirgefa heimili sín í skyndi.„Ég er alltaf með kveikt á svæðisútvarpi ABC, ástralska ríkisútvarpsins og þar eru lesnar fréttir á korters fresti ef hættan er mikil. Þá er sagt frá því hvar eldar logi og hvar hættan sé mest.“

Hún segir þau, líkt og aðra nágranna þeirra, þegar vera búin að gera áætlun stefni eldarnir þangað. „Við bara förum. Ég er búin að pakka meðulum, vegabréfum, tölvu, síma og öðru slíku, þannig að það nauðsynlegast er tilbúið.“

Margir eru líka búnir að pakka í bíla sína og eru tilbúnir að fara gerist þess þörf. „Þetta getur nefnilega gerst svo fljótt.“

Til þessa hafa sex hafa farist í eldunum og 577 heimili hafa orðið eldunum að bráð — þar af 420 heimili  sl. hálfan mánuð og segir Sólveig raunar kraftaverk að ekki hafi fleiri farist. Sumir hafa sloppið með fötin ein sem þeir voru í.  

Sólveig með eiginmanni sínum Lindsay O'Brien. Þau reka saman kúabúið …
Sólveig með eiginmanni sínum Lindsay O'Brien. Þau reka saman kúabúið Sólheima í Narrabri í New South Wales. Ljósmynd/Aðsend

Má ekki minnast á loftslagsbreytingar

Sólveig  segir nokkurrar reiði gæta í garð stjórnmálamanna, þar sem ekki virðist mega minnast á loftslagsbreytingar í tengslum við gróðureldana.

„Loftslagsbreytingar eiga sinn þátt í þessu. Það er  þurrkurinn og loftslagsbreytingarnar og  þetta hjálpast allt að til að gera aðstæðurnar verri,“ segir hún.

Enginn úrkoma hefur komið í Narrabri frá því vorið 2018, en miklir þurrkar hafa verið í Ástralíu undanfarin misseri. Gróður er því víða skrjáfþurr og lítið þarf til að allt furði upp.

Sóley og maður hennar rækta nautgripi á Sólheimum. „Það kom mikill þurrkur árið 2002 og þá létum við bora fyrir vatni, þannig að við erum með borvatn handa kúnum en vatnsbólin eru alveg búin,“ segir hún. Villt dýr sækja því mikið heim að bænum í leit að vatni og æti. „Ég fæ kengúrur á veröndina,“ segir hún og bætir við að hún reyni jafnan að  halda lífi í nokkrum plöntum hringinn í kringum húsið „til að hafa eitthvað grænt“.  „Þær éta þetta allt,“ segir hún og kveðst alltaf reyna að hafa vatn fyrir fuglana.

Erfitt er líka að slökkva elda þegar ekkert vatn er að hafa. „Þeir eru í vandræðum sérstaklega á New England-svæðinu,“ útskýrir Sólveig. „Þeir leita í vatnsból hjá bændum ef slíkt er að hafa, en annars farið að flytja vatn í stórum vatnstrukkum.“

Gróðureldarnari nálgast hér bæinn Taree í New South Wales. Í …
Gróðureldarnari nálgast hér bæinn Taree í New South Wales. Í dag loguðu gróðureldar á 50 stöðum í fylkinu og hafði slökkviliði ekki tekist að ná stjórn á 24 þeirra. AFP

Bíður eftir regninu

Algjört bann er í gildi við að kveikja elda úti og segir Sólveig fólk almennt hlýða banninu. Mikið er þó um að tré hafi verið gróðursett þétt upp við hús og þá getur allt fuðrað upp á svipstundu án þess að neitt verði við ráðið.

Að gróðureldunum frátöldum segir Sólveig yndislegt að vera bóndi í Ástralíu. „Mér líður vel hérna,“ segir hún en kveðst þó koma oft heim til Íslands þar sem hún á dóttur, barnabörn og barnabarnabörn. Undanfarin ár hefur hún notið þess að dvelja á Íslandi yfir sumartímann hér og kveðst ætlar sér gera það áfram í ellinni.

„Ég hefði aldrei trúað að ég ætti einhvern tímann eftir að verða þreytt á sól, en nú er ég búin að fá alveg nóg og hreinlega bíð eftir regninu,“ segir Sólveig sem er á leið til Íslands í desember að hitta fjölskylduna.

Slökkviliðsmenn velkomnir stendur á þessu skilti þar sem boðið er …
Slökkviliðsmenn velkomnir stendur á þessu skilti þar sem boðið er upp á kaffi, te, sturtu, hvíldaraðstöðu og það mikilvægasta af öllu — vatn í tanki. AFP
mbl.is