Umfangsmiklar árásir Ísraelshers á Írana í Sýrlandi

Ísraelsher gerði umfangsmiklar árásir á fjölda skotmarka nærri Damaskus, höfuðborg …
Ísraelsher gerði umfangsmiklar árásir á fjölda skotmarka nærri Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í nótt. Herinn segir árásina beinast gegn sveitum Írana sem skutu eldflaugum að Ísrael í gær. AFP

Ísraelsher segist bera ábyrgð á árásum á sýrlenskt landsvæði nærri höfuðborginni Damaskus sem tengist stjórnvöldum í Íran. Tveir almennir borgarar féllu í árásunum í nótt að sögn sýrlenskra yfirvalda, sem fullyrða jafnframt að loftvarnarbyssur sýrlenska hersins hafi hæft sprengjur yfir Damaskus sem varpað var úr ísraelskum herflugvélum. 

Í færslu öryggissveita Ísraels á Twitter segir að árásirnar hafi verið gerð í hefndarskyni sem svar við fjórum flugskeytum sem skotið var frá Sýrlandi að norðurhluta Ísraels í gær.  

Háværar sprengingar heyrðust í höfuðborginni í nótt og eldar kviknuðu víða. Ísraelski herinn lýsti yfir ábyrgð á árásunum í morgun. 

Frá því að borgarastyrjöldin hófst í Sýrlandi fyrir átta árum hefur Ísraelsher gert fjölda árása á sýrlenskt landsvæði. Skotmörkin eru, að þeirra sögn, tengd Íran og Hezbollah. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert