Grunur um manndráp ofan á langan sakaferil

Bifreiðin gjöreyðilagðist eftir að nær alblindur ökumaður með 2,75‰ vínanda ...
Bifreiðin gjöreyðilagðist eftir að nær alblindur ökumaður með 2,75‰ vínanda í blóði sínu ók á ofsahraða inn á byggingarsvæði í Þrándheimi í ágúst. Hann hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um manndráp eftir að 39 ára gömul kona fannst þungt haldin á heimili hans og lést skömmu eftir komu á sjúkrahús. Ljósmynd/Lögreglan í Þrándheimi

Þrándheimsbúi á fimmtugsaldri, sem telst nær alblindur samkvæmt héraðsdómi frá 2008, situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um manndráp eftir að 39 ára gömul kona fannst þungt haldin á heimili hans í Lademoen í Þrándheimi 27. október. Hún var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi fáeinum klukkustundum síðar. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald ásamt öðrum manni, á fertugsaldri, sem hittist fyrir í íbúðinni og liggur undir grun um samverknað.

Aðalgrunaði missti nánast alla sjón þegar hann drakk tréspíra blandaðan í kaffi árið 2008 en greinir mun ljóss og skugga. Samkvæmt skýrslu lækna frá Fylkissjúkrahúsinu í Rogaland telst maðurinn nær blindur á báðum augum og litlar líkur á nokkrum bata á þeim vettvangi.

Blindan kom þó ekki í veg fyrir að hann æki BMW-bifreið á ofsahraða með 2,75‰ vínanda í blóði sínu inn á byggingarsvæði í Þrándheimi að kvöldi 30. ágúst með þeim afleiðingum að bifreiðin gjöreyðilagðist og annar tveggja hunda, sem í henni voru með ökumanni, drapst af völdum áverka sem hann hlaut við áreksturinn. Vegfarandi sagði lögreglu að örskömmu áður hefði bifreiðin þotið fram hjá honum á líklega um 100 kílómetra hraða miðað við klukkustund.

Ökumaðurinn sat fastklemmdur undir stýri bifreiðarinnar þegar lögreglu bar að garði en hafði þó þegar uppi þá skýringu að sambýliskona hans hefði ekið bifreiðinni þrátt fyrir að í henni væru aðeins hann sjálfur og ferfætlingarnir.

Fjöldi dóma og geðmeðferð

Maðurinn hefur verið í mikilli óreglu árum saman og á sér langan brotaferil. Árið 2017 hlaut hann dóm fyrir að kveikja í tveimur húsum í Stavanger, öðru á gamlársdag 2015 og hinu daginn eftir, á nýársdag, en auk þess hefur hann hlotið dóma fyrir stórfellda líkamsárás, líflátshótanir og frelsissviptingu.

Fyrir þremur árum var manninum með dómi gert að sæta geðmeðferð (n. tvungent psykisk helsevern), þó ekki með samfelldri dvöl á stofnun og hefur hann því að mestu dvalist í félagslegri íbúð í Lademoen þangað sem lögregla hefur átt tíðar heimsóknir vegna hávaða og ölvunar. Nágrannar mannsins í næstu íbúð við hliðina á, sem eru með þriggja mánaða gamalt barn á heimili sínu, báðust undan viðtali við fjölmiðla en segja þó að á ýmsu hafi gengið í nágrannaíbúðinni.

NRK (ökuferðin)

NRK II (gæsluvarðhaldsúrskurður og sakaferill)

NRK III (konan sem lést)

VG

Nettavisen

TV2

mbl.is