Dómstóll úrskurðar farangursgjöld Ryanair „óhófleg“

Forsvarsmenn Ryanair segjast ekki ætla að hætta að rukka fyrir …
Forsvarsmenn Ryanair segjast ekki ætla að hætta að rukka fyrir handfarangur. AFP

Spænskur dómstóll hefur úrskurðað farangursgjöld lággjaldaflugfélagsins Ryanair „óhófleg“ eftir að flugfélagið tók að rukka fyrir stærri handfarangurstöskur og sektaði farþega sem tók með sér handfarangur án þess að hafa sérstakan miða fyrir farangrinum.

Var farþeganum gert að greiða 20 evra sekt fyrir 10 kg handfarangurstöskuna, en Ryanair heimilar eingöngu farþegum að taka með handfarangur sem rúmast undir sætinu.

Farþeginn sem fékk sektina var á leið frá Madrid til Brussel þegar hann hlaut sektina, en það er stefna flugfélagsins að rukka farþega aukalega fyrir allt sem þeir bera með sér um borð umfram eina litla tösku.

Sagði dómstóllinn konuna eiga að fá sektina greidda með vöxtum þar sem taskan hefði auðveldlega passað í farangurshólfið og gerði Ryanair að fjarlægja greinina um greiðslu fyrir handfarangur úr reglum flugfélagsins.

BBC hefur eftir forsvarsmönnum flugfélagsins að þeir ætli ekki að breyta reglum sínum um handfarangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert