Rannsóknin á Trump áberandi í kappræðum demókrata

Elizabeth Warren og Joe Biden í kappræðunum í gærkvöldi.
Elizabeth Warren og Joe Biden í kappræðunum í gærkvöldi. AFP

Rannsóknin á embættisverkum Donalds Trump Bandaríkjaforseta var á meðal þess sem tíu forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins ræddu í Atlanta í Georgíu í gærkvöldi.

Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður, sem var einn fyrsti frambjóðandinn til að hvetja til þess að forsetinn yrði kærður, sagðist ætla að reyna að sannfæra þingmenn Repúblikanaflokksins um að greiða atkvæði með brottvikningu hans úr embætti. Ætlar hún að benda þeim á það nýjasta sem hefur komið fram um mál Trumps í Úkraínu sem hluta af brotum hans í starfi.

Rannsóknin á Trump er til komin vegna meintra tilrauna hans til að þrýsta á úkraínsk yfirvöld um að hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem sækist einnig eftir tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaembættisins.  

Bernie Sanders í kappræðunum.
Bernie Sanders í kappræðunum. AFP

Ætlar að berjast gegn spillingu 

Warren talaði einnig um áætlun sína um að berjast gegn spillingu þar sem lagt er til að banna það að þeir sem veita veglega fjárstyrki í kosningabaráttu geti orðið sendiherrar. Gordon Sondland, sem bar vitni í rannsókninni á embættisverkum Trump, er yfirlýstur stuðningsmaður Trump og veitti framboði hans háan fjárstyrk fyrir forsetakosningarnar 2016. Hann starfar nú sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu.

Sagði Trump sjúklegan lygara

Frambjóðandinn Bernie Sanders kallaði Trump sjúklegan lygara og spilltasta núlifandi forsetann og Pete Buttigieg, sem einnig er í framboði, sagði forsetann hafa misnotað vald sitt.

Joe Biden, sem er efstur í skoðanakönnunum sem næsti forsetaframbjóðandi demókrata á undan Warren og Sanders, sagði Trump hafa veitt honum athygli vegna þess að hann væri í bestri stöðu til að sigra hann.

Biden sagðist ekki styðja hugmyndir Warren og Biden um stóra breytingu á heilbrigðiskerfinu, Medicare for All, og taldi eðlilegast að byggja á núverandi kerfi, Obamacare. „Staðreyndin er sú að mikill meirihluti demókrata, styður ekki Medicare for All,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert