Sjaldgæfur pandabjörn á flótta

Samkvæmt starfsfólki St Martin la Plaine-dýragarðsins slapp pandabjörninn með því …
Samkvæmt starfsfólki St Martin la Plaine-dýragarðsins slapp pandabjörninn með því að klifra eftir brotnum trjágreinum. Ljósmynd/St Martin la Plaine

Yfirvöld leita nú að rauðum pandabirni sem slapp úr dýragarði í Suður-Frakklandi, skammt frá borginni Lyon. 

Samkvæmt starfsfólki St Martin la Plaine-dýragarðsins slapp pandabjörninn með því að klifra eftir brotnum trjágreinum sem látið höfðu undan í mikilli snjókomu undanfarna daga.

Síðast sást til pandabjarnarins sjaldgæfa í um fimm kílómetra fjarlægð frá dýragarðinum.

Dýragarðurinn hefur auglýst eftir pandabirninum rauða á Facebook. Þar eru íbúar í nágrenninu beðnir að hafa augun opin, en varaðir við því að reyna að ná birninum. „Jafnvel þó þetta sé lítið, saklaust dýr með mjúkan feld hefur það góðar klær og tennur.“

Um er að ræða þriggja ára gamalt karldýr og er hann sagður framúrskarandi í klifri og algerlega ólofthræddur. Af þessum sökum er fólk sérstaklega beðið að horfa upp í tré í leit að birninum.

Rauðir pandabirnir eiga rætur sínar að rekja til skóga Himalajafjalla og finnast m.a. í Bhutan, Nepal, norðausturhluta Indlands, norðurhluta Búrma og suðvesturhluta Kína. Þrátt fyrir að nafnið gefi annað til kynna er rauði pandabjörninn fjarskyldur risapöndunni.

Rauða pandan á undir högg að sækja vegna skógarhöggs og veiðimanna og er á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Frétt BBC

mbl.is