Er Thunberg tímaferðalangur?

Greta Thunberg. Nú eru uppi kenningar um að hún sé ...
Greta Thunberg. Nú eru uppi kenningar um að hún sé tímaferðalangur. AFP

121 árs gömul mynd, sem tekin var við gullgröft í Kanada, hefur vakið vangaveltur um hvort sænski loftslagssaðgerðasinninn Greta Thunberg sé tímaferðalangur. Sjálf hefur Thunberg ekki tjáð sig um málið, en hún er nú á ferð yfir Atlantshafið á leið frá Virginíuríki í Bandaríkjunum til Lissabon í Portúgal á hinum 48 feta tví­bol­ungi La Vaga­bonde.

Myndin er frá árinu 1898 og er í eigu Washington-háskóla. Á myndinni sjást þrjú börn að störfum við gullgröft í Yukon, sem er í norðvesturhluta Kanada, henni hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum og margir hafa tjáð sig um hana. Sumir segjast telja að Thunberg sé tímaferðalangur sem ferðist í gegnum tímann til að bjarga mannkyninu frá sjálfu sér.

Aðrir segjast vona að hún hafi þá a.m.k. notað umhverfisvænan ferðamáta, á borð við sólarorkuknúið farartæki, til tímaflakksins og að hún hafi kolefnisjafnað ferðina.

mbl.is