Haustrigningar þær mestu frá því mælingar hófust

September og október voru einkar blautir mánuðir í Danmörku.
September og október voru einkar blautir mánuðir í Danmörku. AFP

Aldrei frá því mælingar hófust hefur rignt jafn mikið í Danmörku á einu hausti. Danska ríkisútvarpið DR greinir frá þessu og segir skýfall, úrkomu sem vari í fleiri tíma, og götur og engi sem fljóti í vatni vera lýsandi fyrir ástandið þetta haustið.

Síðustu nótt var metið svo slegið fyrir votasta haustið frá því mælingar hófust árið 1874. Fyrra metið var frá 1967 en það ár mældust 327 millimetrar í október, september og nóvember.

„Við sláum metið af því að september og október voru mjög blautir,“ segir Mikael Scharling, veðurfræðingur hjá dönsku veðurstofunni. „Þegar nóvember gekk í garð hafði úrkoman mælst 260 millimetrar, þannig að þótt hún hafi verið í meðallagi í nóvember þá dugir það til að slá metið. Það er þó ekki á hverjum degi sem svona met er slegið, þannig að þetta er óvenjulegt.“

DR segir úrhellið í haust fela í sér að það grilli í að metið fyrir votasta árið verði líka slegið. Það met er frá 1999, en það ár mældist úrkoman 905 millimetrar. Nú þegar hefur úrkoman mælst 815 millimetrar og því kann metið vel að falla því í meðalári mælist úrkoma í desember 83 millimetrar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert