Taka á móti breskum munaðarleysingjum frá Sýrlandi

Barn með móður sinni í Al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd úr …
Barn með móður sinni í Al-Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd úr safni. AFP

Hópur breskra barna, sem eru munaðarlaus eftir stríðið í Sýrlandi þar sem þau hafa verið strandaglópar síðan, eru á leið heim til Bretlands á næstunni.

BBC hefur þetta eftir Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, en börnin verða fyrstu bresku ríkisborgararnir sem fá að snúa heim frá þeim hluta Sýrlands sem áður var á valdi vígasamtakanna Ríkis íslams.

Þessi „saklausu börn hefðu“ aldrei átt að þurfa að „upplifa stríðshrylling“, sagði Raab, en bresk góðgerðarsamtök hafa lengi þrýst á stjórnvöld að flytja öll bresku börnin heim.

Búist er við hópnum sem nú kemur til Bretlands á næstu dögum, en af öryggisástæðum eru ekki veittar frekari upplýsingar um endurkomu þeirra.

„Við höfum auðveldað þeim að komast heim af því að það var það rétta í stöðunni,“ sagði í yfirlýsingu frá Raab. „Nú verða þau að fá næði og stuðning til að snúa aftur til venjulegs lífs.“

Örlög erlendra vígamanna sem fóru til Sýrlands og fjölskyldna þeirra hafa verið mikið deiluefni og hafa mörg ríki, m.a. Bretland verið treg til að taka við þeim aftur. Börn hafa þó fengið að snúa heim í nokkrum tilfellum og greindu danskir miðlar til að mynda frá því í gær að 11 mánaða munaðarlaus danskur drengur væri nýkominn til Noregs eftir veru í flóttamannabúðunum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hins vegar sagt ríki heims eiga að taka ábyrgð á eigin ríkisborgurum, nema til standi að sækja þá til saka í Sýrlandi í samræmi við alþjóðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert