Dæmdur til dauða 15 ára gamall

Magai Matiop Ngong hefur setið á dauðadeild frá því hann …
Magai Matiop Ngong hefur setið á dauðadeild frá því hann var 15 ára gamall. Ljósmynd/Amnesty International

Magai Matiop Ngong var 15 ára gagn­fræða­skóla­nemi í Suður-Súdan þegar hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa skotið nágranna sinn til bana. Hann hefur setið á dauðadeild í tvö ár og eina fjölskyldan sem hann á er móðir hans sem er flóttamaður í Úganda.

Mál hans er hluti af alþjóðlegri her­ferð Am­nesty In­ternati­onal þar sem þrýst er á stjórn­völd víða um heim. Her­ferðin Þitt nafn bjarg­ar lífi var form­lega sett í Hörpu á fimmtudag.

„Á meðan rétt­ar­höldin stóðu yfir sagði hann við dómarann að hann væri aðeins fimmtán ára og að morðið sem hann var ákærður fyrir hefði verið slys. Þrátt fyrir það dæmdi dómarinn hann til heng­ingar.

„Tilfinn­ingin var alls ekki góð,“ segir Magai. Það er ekki ánægju­legt að fá að vita að maður sé að fara að deyja.“

Magai var ekki með lögfræðing sér til aðstoðar þegar hann var hand­tekinn eða við fyrstu rétt­ar­höldin. Dómari sagði að hann gæti áfrýjað málinu og farið fram á ógild­ingu dauðarefs­ing­ar­innar. Hann fékk fyrst lögfræðing þegar hann var fluttur í annað fang­elsi.

Á síðasta ári voru sjö hengdir í Suður-Súdan, einn af þeim var á barns­aldri eins  og Magai.

Tveimur árum eftir að dómurinn var kveðinn upp er Magai á dauða­deild í Juba Central-fang­elsinu þar sem hann bíður þess að áfrýj­unin verði tekin fyrir. Hann hefur þó ekki misst vonina um að losna og halda áfram skóla­göngu sinni,“ segir um Magai á vef Íslandsdeildar Amnesty International.

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty hefur Magai gaman af því að hlaupa og syngja. Þegar hann var handtekinn var hann í gagnfræðaskóla og dreymdi um að verða forseti Suður-Súdan svo hann gæti hjálpað samlöndum sínum. Nú eyðir hann mestum tíma sínum í kirkjunni í fangelsinu. Hann syngur gospel-lög til að slaka á og þegar ástandið er erfitt. 

Þetta hófst allt 5. maí 2007 þegar frændi og nágranni Magai lentu í rifrildi. Daginn eftir kom nágranninn heim til Magai og þeim lenti saman vegna rifrildis nágrannans við frændann daginn áður. Nágranninn dró upp byssu og Magai nær einnig í byssu sem var til á heimilinu. Frændi Magai reynir að stöðva þá og biður Magai að hætta slagsmálunum sem komin voru upp. Magai skaut úr byssunni í jörðina en byssukúlan endurkastast og lendir í frænda Magai sem lést af völdum áverkanna á sjúkrahúsi.

Í lok maí 2017 er Magai færður úr herstöðinni í Nimule-sýslufangelsið. Hann er þar ákærður fyrir að hafa myrt frænda sinn. Þann 14. nóvember 2017 er hann dæmdur til dauða án þess að vera með lögmann. Þann 3. desember 2017 er hann fluttur í Torit ríkisfangelsið. Þann 27. desember hefur hann samband við Sameinuðu þjóðirnar sem útvega honum lögfræðing. Dauðadómnum var áfrýjað þann sama dag. 

Þann 9. september 2018 var Magai fluttur frá Torit-fangelsinu í Juba-fangelsið þar sem hann bíður þess að áfrýjunin verði tekin fyrir. Á jóladag það sama ár hélt hann upp á 17 ára afmælið á dauðadeild.

Samkvæmt stjórnarskrá Suður-Súdan er bannað að dæma fólk til dauða fyrir glæp sem það fremur fyrir 18 ára aldur. 

Á hverju ári í kring­um alþjóðlega mann­rétt­inda­dag­inn 10. des­em­ber safn­ast millj­ón­ir bréfa, korta, SMS-ákalla og und­ir­skrifta í gegn­um alþjóðlegu mann­rétt­inda­sam­tök­in Am­nesty In­ternati­onal þar sem skorað er á stjórn­völd að gera um­bæt­ur í mann­rétt­inda­mál­um.

„Þessi ein­staki sam­stöðumátt­ur skil­ar raun­veru­leg­um breyt­ing­um í lífi þeirra sem minnst mega sín. Á hverju ári eru sam­viskufang­ar leyst­ir úr haldi, fang­ar hljóta mannúðlegri meðferð, þolend­ur pynd­inga sjá rétt­læt­inu full­nægt, fang­ar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri lög­gjöf breytt,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá Am­nesty á Íslandi.

Hér er hægt að lesa um mál­in og skrifa und­ir

mbl.is