Forseti Namibíu segir Íslendinga eiga að rannsaka spillingu

Hage Gottfried Geingob, forseti Namibíu og leiðtogi SWAPO.
Hage Gottfried Geingob, forseti Namibíu og leiðtogi SWAPO. AFP

Hage Geingob, forseti Namibíu, segir að fjölmiðlar í Namibíu sem og alþjóðlegir miðlar, hafi ráðist gegn Namibíumönnum og þá sér í lagi gegn ráðandi öflum í landinu með að segja aðeins frá þeim sem tóku við mútugreiðslum í tengslum við Samherjamálið svokallaða. Hins vegar væri lítið talað um þá sem hefðu veitt múturnar. Þetta hefur fjölmiðillinn The Namibian eftir forsetanum í lokaræðu hans fyrir forsetakosningar í landinu sem fara fram á miðvikudaginn.

Í röð tísta á Twitter segir The Namibian frá því að Geingob hafi spurt hvaðan mútugreiðslurnar hefðu komið og bætt við að Íslendingar ættu einnig að rannsaka spillingu í eigin landi.

Sagði hann að ákveðin fjölmiðlaöfl hefðu á skipulagðan og meðvitaðan hátt sagt frá málinu í aðdraganda kosninga.

Sagðist hann skilja að íbúar landsins væru slegnir yfir fréttum um meinta spillingu því að spilling eyðileggi samfélagið.

Hage Gottfried Geingob, forseti Namibíu, ásamt stuðningsmönnum sínum og samflokksfólki í SWAPO, á lokafundi hans fyrir kosningarnar á miðvikudaginn. AFP

Þegar hefur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu verið handtekinn vegna rannsóknar á Samherjamálinu og þá hafa eignir tveggja annarra verið frystar. Leitar lögreglan þeirra auk þriðja manns, en um er að ræða þremenningana sem þekktir eru sem hákarlarnir.

Há­karl­arn­ir þrír eru þeir James Hatuikulipi, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður rík­is­út­gerðarfé­lags­ins Fis­hcor, Sacky Shang­hala, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra Namib­íu, og Tam­son Hatuikulipi, tengda­son­ur Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og náfrændi James.

mbl.is