Bloomberg kaupir auglýsingar fyrir 31 milljón dollara

Michael Bloomberg mun líklega bætast í hóp frambjóðenda fyrir forkosningar …
Michael Bloomberg mun líklega bætast í hóp frambjóðenda fyrir forkosningar demókrata vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum á næsta ári. AFP

Viðskiptajöfurinn og fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, Michael Bloomberg, hyggst hleypa af stokkunum 31 milljón dollara sjónvarpsauglýsingaherferð á mánudag. Miklar líkur eru á að Bloomberg bætist við í hóp frambjóðenda fyrir forval demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. 

Milljarðamæringurinn hefur keypt auglýsingar fyrir tæplega 4 milljarða króna, en upphæðin er sú hæsta sem forsetaframbjóðandi hefur eytt í auglýsingar í Bandaríkjunum. 

Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders gagnrýndi auglýsingakaup Bloomberg harðlega á Twitter-síðu sinni í gær. Sagði hann Bloomberg ekki eiga neitt erindi í forsetaframboð ef hann gæti ekki byggt upp grasrótarhreyfingu til að styðja framboðið. 

Bloomberg hefur undanfarna daga og vikur gert sig líklegan til að bjóða sig fram í forkosningu demókrata. Hefur hann skráð sig opinberlega til að vera á kjörseðlinum í forkosningunum í Arkansas- og Alabamaríki, en þörf er að skrá sig fyrr í báðum ríkjum vegna forkosninganna. mbl.is

Bloggað um fréttina