Gátan um líkið í Ecco-skónum leyst

Kennslanefnd Kripos hafði ekki úr miklu að moða eftir að …
Kennslanefnd Kripos hafði ekki úr miklu að moða eftir að illa farið kvenmannslík fannst í sjónum við Kalvøya í Lillesand í Suður-Noregi í janúar 2008, konan hafði verið 166 sentimetra há, skolhærð og klædd Ecco-skóm númer 39 sem var vegna ástands líksins eina hæfa myndefnið þegar lögregla leitaði til almennings í febrúar 2008. Slóðin kólnaði hratt en á föstudaginn, tæpum tólf árum eftir fundinn, varð loks ljóst hver konan í Ecco-skónum var. Ljósmynd/Norska lögreglan

Þriðjudaginn 29. janúar 2008 sigldi sumarbústaðareigandinn Reidar Eeg fleyi sínu milli eyjanna úti fyrir Lillesand, ekki langt frá Kristiansand í Suður-Noregi. Hann var að svipast um eftir rekaviði og þótti siglingin róandi og góð iðja eftir að hafa svitnað daglangt við að dytta að bústað sínum.

Torkennilegur hlutur sem marraði í hálfu kafi við bryggju eins af um 20 sumarbústöðum í Kalvøya náði þó að raska stóískri ró Eeg þennan þriðjudaginn og stýrði hann báti sínum inn í víkina til að kanna málið.

Óneitanlega fór um Eeg þegar við honum blasti hálfnakinn kvenmannslíkami á grúfu í sjónum. Líkið var aðeins íklætt nærbuxum, sokkum og henglum af pilsi auk þess sem svartir Ecco-skór númer 39 sátu kirfilega fastir á uppblásnum fótunum.

166 sentimetrar á aldrinum 30 til 50 ára

Eftir að lögregla og björgunarskip höfðu komið líkinu upp úr sjónum og í líkhús til skoðunar tók frumskoðun við. Konan hafði verið 166 sentimetra há, skolhærð, allvel í skinn komið, líklega hátt í 90 kíló, og á aldrinum 30 til 50 ára. Útilokað var að segja til um dánarorsök og þótti ljóst að líkið hefði verið mánuðum saman í sjónum. Straumar og votir vindar höfðu sett mark sitt á það auk þess sem fuglar og sjávardýr höfðu heimtað sinn skerf.

Að sögn Kjetil Nygård lénsmanns, sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við árið 2014 í samantektinni Ísköld gröf, sem fjallaði um þrjú óþekkt lík sem legið höfðu árum saman í frystigeymslu Ríkissjúkrahússins í Ósló, voru lögreglu hreinlega öll sund lokuð frá fyrsta degi rannsóknarinnar og sýndi lénsmaðurinn fréttamönnum NRK næfurþunna gagnamöppu málsins. Þar var ekki feitan gölt að flá.

Enginn hafði tilkynnt um að manneskju, sem líktist því litla sem eftir var af óþekktu konunni, væri saknað síðustu mánuði og útlit hennar kom ekki heim og saman við neina þriggja kvenna sem horfið höfðu í Noregi síðustu ár á undan, þær Ann-Helen Karlsen frá Lillesand,  Dung Tran Larsen frá Hordaland og Belur Sardar frá Drammen. Slóðin kólnaði hratt.

Leitað til almennings

Tæpum mánuði eftir líkfundinn, eftir að myndir af tönnum konunnar höfðu verið sendar til kennslanefnda um gervalla Skandinavíu án þess að nokkuð kæmi út úr því, ákvað lögregla að leita til almennings sem oftar en ekki hefur gefið góða raun í norskum mannshvarfs- og líkfundarmálum. Lýsingin var frekar fátækleg og eina myndin sem hægt var að birta vegna ástands líksins var af fæti í Ecco-skó númer 39, býsna algengu merki um alla Evrópu.

Engar vísbendingar að gagni bárust, enginn virtist hreinlega sakna konunnar í Ecco-skónum. Lögregla lagði fram ótal kenningar, þar á meðal þá að konan hefði fallið útbyrðis af skipi, hugsanlega skemmtiferðaskipi eða einni af ferjunum sem sigla oft á dag milli Noregs og Danmerkur, margar frá Kristiansand. Eins hefði líkið getað verið komið langt að, rekið frá Danmörku, Svíþjóð eða jafnvel fjarlægari svæðum Norður-Evrópu.

Kenningarnar einar stoðuðu hins vegar lítið og árið 2009 var rannsókninni opinberlega hætt. Lík konunnar lá áfram árum saman í frystigeymslunni í Ósló, NRK fjallaði eins og fyrr segir um mál hennar auk mála tveggja karlmannslíka í sama frysti sem fundist höfðu í Guðbrandsdalsánni árið 2010 og í kamar við Nordstrand-baðströndina í Ósló 2011.

Tveimur árum eftir umfjöllun NRK var lík konunnar tekið úr frystigeymslunni og lagt nafnlaust til hinstu hvílu í kirkjugarði í Suður-Noregi. Enginn sótti þá útför.

Á föstudaginn leystist hins vegar gátan um konuna í Ecco-skónum þegar kennslanefnd sænsku rannsóknarlögreglunnar hafði samband við starfssystkinin í Noregi. Tæpum tólf árum eftir að konan fannst á floti við Kalvøya hringdu tennur hennar bjöllum í gagnagrunni sænskrar tannlæknastofu. Konan var þar með komin með nafn sem lögregla hyggst ekki greina frá opinberlega að svo búnu. Hún reyndist vera sænsk og fædd árið 1958, efri mörk aldursgreiningarinnar stóðust því.

Nygård lénsmaður segir að nú taki við vinna við að hafa uppi á ættingjum konunnar, séu einhverjir þeirra lífs, og koma tíðindunum til þeirra. „Okkur hefur hins vegar ekki tekist að finna neinn enn þá,“ sagði lénsmaðurinn við NRK í gær.

NRK 

NRK (úttektin Ísköld gröf frá 2014)

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert