Heilaþvegin og haldið föngnum

Yf­ir­völd í Xinjiang-héraði fylgj­ast náið með minni­hluta­hópn­um í héraðinu.
Yf­ir­völd í Xinjiang-héraði fylgj­ast náið með minni­hluta­hópn­um í héraðinu. AFP

Gögn kínverskra stjórnvalda sem lekið var til alþjóðasam­taka rann­sókn­ar­blaðamanna (ICIJ) sýna í smáatriðum hvernig hundruð þúsunda úígúra hafa verið heilaþvegin í sérstökum kyrrsetningarbúðum, sem séu í raun fangabúðir, í Xinjiang-héraði í vesturhluta Kína. 

Búðunum var komið á fót fyrir þremur árum og hafa kín­versk stjórn­völd ítrekað haldið því fram að um sé að ræða sér­stak­ar starfsþjálf­un­ar­búðir sem ætlaðar séu til að vinna gegn öfga­sinn­um. 

Sendiherra Kína segir gögnin falsfréttir

Gögnin sýna að úígúrar, sem eru múslimar, sæta ger­ræðis­leg­um hand­tök­um og marg­vís­leg­um tak­mörk­un­um varðandi trú­ariðkan­ir, auk þess sem póli­tískri inn­ræt­ingu er þröngvað upp á þá. Þá er fólkið læst inni í herbergjum sínum og refsað ef ekki er farið eftir tilskildum reglum. 17 fjölmiðlar hafa unnið úr gögnunum með aðstoð ICIJ, þar á meðal BBC Panorama og The Guardian. Sendiherra Kína í Bretlandi segir gögnin falsfréttir. 

Sér­fræðing­ar Sam­einuðu þjóðanna og mann­rétt­inda­sam­tök segja kín­versk yf­ir­völd vera með um eina millj­ón úígúra í haldi í búðunum. Ísland er meðal 22 ríkja sem eiga sæti í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna og sendu frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu í sumar þar sem meðferð kín­verskra ráðamanna á úígúrum í Xinjiang-héraði er gagn­rýnd.

Fylgt eftir hvert fótmál

Meðal gagna er níu síðna minnisblað sem Zhu Hailun, þáverandi aðstoðarritari Kommúnistaflokksins í héraðinu og yfirmaður öryggismála, sendi stjórnendum búðanna. Þar kemur skýrt fram að búðirnar skuli vera reknar eins og öryggisfangelsi með ströngum aga og refsingum og að tryggt sé að engin undankomuleið sé úr þeim. 

Í minnisblaðinu má finna skipanir á borð við „Aukinn agi og refsing fyrir brot á hegðunarreglum“, „hvetjið nemendur til að umbreytast“ og „tryggið að eftirlitsmyndavélar í svefnálmum og kennslustofum nái yfir allt svæðið“. 

„Aukinn agi og refsing“ er meðal skipana sem Kommúnistaflokkurinn í …
„Aukinn agi og refsing“ er meðal skipana sem Kommúnistaflokkurinn í Kína setti stjórnendum kyrrsetningabúðanna fyrir. Skjáskot/ICIJ

Gögnin sýna að fólkinu í búðunum er fylgt eftir hvert fótmál og því stýrt hvernig það hagar lífi sínu. Sophie Richardson, talskona mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, segir gögnin sýna fram á gróf mannréttindabrot. „Að minnsta kosti er um að ræða andlega pyntingu þar sem fólk veit ekki hversu lengi það þarf að dvelja í búðunum,“ segir hún. Í minnisblaðinu kemur fram að fólk geti einungis yfirgefið búðirnar þegar það hafi breytt hegðun sinni, skoðunum og tungumáli. 

Talskona mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir gögnin sýna fram á …
Talskona mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir gögnin sýna fram á gróf mannréttindabrot gegn úígúrum. AFP

„Fólk lifir hamingjusömu lífi“

Liu Xiaoming, sendiherra Kína í Bretlandi, segir búðirnar hafa tryggt öryggi úígúra í héraðinu og bendir á að engin hryðjuverkaárás hafi verið framin þar síðustu þrjú ár.

„Héraðið nýtur nú félagslegs stöðugleika og samstöðu meðal þjóðernishópa. Fólk lifir hamingjusömu og öruggu lífi.“

mbl.is