Blair segir Breta í „hættulegu klúðri“

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, telur hvorki Verkamanna- né Íhaldsflokkinn …
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, telur hvorki Verkamanna- né Íhaldsflokkinn eiga skilið að fara með sigur af hólmi í þingkosningunum. AFP

Hvorki Íhaldsflokkurinn né Verkamannaflokkurinn eiga skilið að fara með sigur af hólmi í þingkosningunum sem fram fara í Bretlandi þann 12. desember, að mati Tony Blair fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.

Blair, sem var leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra á árunum  1997-2007, sagði í samtali við Reuters Breta vera í „hættulegu klúðri“. „Þanþol hagkerfis heimsins hefur haldið okkur uppi þar til núna, en fari það gefa sig þá verðum við í miklum vanda,“ sagði hann.

Blair, sem er eini formaður Verkamannaflokksins sem stýrt hefur flokknum til sigur í þremur þingkosningum, sagði Verkamannaflokknum nú vera stjórnað af „Marxista-Lenínista vængnum“ og að núverandi formaðurinn Jeremy Corbyn væri að lofa byltingu. „Vandinn við byltingar er ekki hvernig þær byrja heldur hvernig þær enda,“ sagði Blair. „Vandinn við byltingar er að þær enda alltaf illa.“

Sagði Blair sannleikann vera þann að breskur almenningur sé ekki sannfærður um að annar hvor flokkurinn eigi skilið að fara með yfirburðasigur í kosningunum.

mbl.is