Magn gróðurhúsalofttegunda aldrei meira

Petteri Taala kynnir niðurstöðurnar á blaðamannafundi í morgun.
Petteri Taala kynnir niðurstöðurnar á blaðamannafundi í morgun. AFP

Magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem eru meginorsök loftslagsvárinnar, náði methæðum í heiminum á síðasta ári. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum sem hvetja til aðgerða til að tryggja „velferð mannkyns til framtíðar“.

„Það eru engin merki um að það sé að hægja á vextinum, hvað þá um dvínun í útblæstri gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu þrátt fyrir allar þær skuldbindingar sem fylgdu Parísarsáttmálanum,“ sagði Petteri Taalas, yfirmaður hjá Alþjóðaveðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna, WMO, í tilkynningu.

Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu í fyrra nam 407,8 hlutum á hverja milljón en árið 2017 var talan 405,5. Aukningin var rétt fyrir ofan árlega meðaltalsaukningu undanfarinn áratug.

Magn hinna tveggja helstu gróðurhúsalofttegundanna, metans og nituroxíðs, var einnig meira en nokkru sinni fyrr á síðasta ári.

„Þessi langtímaþróun þýðir að framtíðarkynslóðir þurfa að takast á við enn alvarlegri áhrif loftslagsbreytinga, þar á meðal hækkandi hitastig, öfgafyllra veður, vatnsskort, hækkandi sjávarborð og truflun á vistkerfum í sjó og á landi,“ sagði í tilkynningunni.

mbl.is