Ríkisstjórn Hong Kong í „alvarlega sjálfsskoðun“

Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong.
Carrie Lam, leiðtogi heimastjórnar Hong Kong. AFP

Leiðtogi heimastjórnar Hong Kong, Carrie Lam, segir ríkisstjórnina ætla í alvarlega sjálfsskoðun eftir úrslit héraðskosninganna, sem sögð eru átölur á Lam.

Í kjölfar kosninganna, þeirra fyrstu síðan mótmælaalda braust út, eru lýðræðissinnar við stjórn í 17 af 18 héruðum sjálfsstjórnarborgarinnar. Þá var þátttaka í kosningunum sögulega há, en 71% íbúa greiddu atkvæði.

Mótmælin, sem staðið hafa yfir mánuðum saman, hófust þegar til stóð að Carrie Lam legði fyrir þingið frumvarp til laga sem kváðu um að framselja mætti dæmda glæpamenn í Hong Kong til Kína. 

Lam dró frumvarpið fljótlega til baka en það varð ekki til þess að mótmælin lægði. Þvert á móti hafa þau aukist og orðið ofbeldisfyllri, en mótmælendur krefjast nú aukins lýðræðis frá Kína.

Niðurstöður kosninganna eru jafnframt sagðar sýna mikinn stuðning við mótmælin.

Í yfirlýsingu frá Lam í kjölfar úrslita kosninganna segir að mörgum þyki úrslitin sýna fram á óánægju íbúa með viðvarandi ástand. Stjórnvöld myndu hlusta á skoðanir almennings og fara í alvarlega sjálfsskoðun.

Frétt BBC

mbl.is