Samþykkti nýja framkvæmdastjórn ESB

mbl.is/Alexander

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í dag nýja framkvæmdastjórn sambandsins þrátt fyrir að bresk stjórnvöld hafi ekki tilnefnt fulltrúa í hana.

Til stóð upphaflega að ný framkvæmdastjórn undir forsæti Ursulu von der Leyen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýskalands, tæki við embætti 1. nóvember en því var frestað um mánuð þegar fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem til stóð að yrði 31. október, var frestað þar til í janúar.

Fram kemur í frétt AFP að næsta skref sé að fá samþykki þings Evrópusambandsins. Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau geti ekki tilnefnt fulltrúa í framkvæmdastjórnina þar sem boðað hafi verið til þingkosninga í Bretlandi 12. desember og þar til ný ríkisstjórn hafi verið mynduð hafi stjórnvöld ekki heimild til þess að taka slíkar ákvarðanir.

Evrópusambandið hefur höfðað mál gegn Bretlandi vegna þess að Bretar hafi ekki tilnefnt fulltrúa í framkvæmdastjórnina. Fram kemur í fréttinni að ýmsir hjá sambandinu hafi varað við því að reynt gæti á það hvort framkvæmdastjórnin sé rétt skipuð fyrir dómstólum. Markmiðið með málsókninni er sagt ekki síst það að sýna að Evrópusambandið hafi gert það sem það gæti til þess að fá Breta til að tilnefna fulltrúa.

Rökstuðningur ráðherraráðsins fyrir því að samþykkja framkvæmdastjórnina án tilnefningar frá Bretlandi er á þá leið að ekki sé hægt að leyfa því að koma í veg fyrir skilvirka starfsemi Evrópusambandsins að Bretar hafi ekki tilnefnt fulltrúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert