Kyn sérsveitarhunds veldur ringulreið

Fólk greinir á um hvort Conan sé góður strákur eða …
Fólk greinir á um hvort Conan sé góður strákur eða góð stelpa. AFP

Óvæntar deilur hafa í nokkra daga staðið yfir á milli Hvíta hússins, fjölmiðla og almennings um það hvort sérsveitarhundur sé karlkyns eða kvenkyns.

Starfsmenn Hvíta hússins hafa sent út yfirlýsingar sem staðhæfa annars vegar að hann sé karlkyns og hins vegar að hann sé kvenkyns. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði hundinn fyrst vera rakka. Aðrir virðast þó flestir á þeirri skoðun að þarna sé um tík að ræða. 

Hundurinn sem um ræðir heitir Conan og er sérsveitarhundur sem tók þátt í áhlaupi á fylgsni leiðtoga ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi. Conan var boðaður til sérstakrar athafnar í Hvíta húsinu þar sem hann var verðlaunaður fyrir hlut sinn í áhlaupinu. Við það tilefni kallaði Trump Conan hetju og „góðan strák“. 

Conan virðist þó slétt sama um deilumálið.
Conan virðist þó slétt sama um deilumálið. AFP

Stuttu síðar sendi Hvíta húsið frá sér leiðréttingu þess efnis að Conan væri reyndar tík. Það vakti athygli og fór fólk að velta því fyrir sér hvernig forsetanum hefði getað skjátlast um kyn hundsins. Tveimur klukkustundum seinna birti Hvíta húsið aðra leiðréttingu. Conan væri í raun og veru rakki og Trump hafði haft rétt fyrir sér allan tímann. 

Skoða klof hundsins í von um svar

Þeirri fullyrðingu hnekktu þó blaðamenn fréttastofu ABC sem greindu frá því að Conan væri eftir allt saman kvenkyns. Fréttin blés glæðum í ályktanir um að Conan væri kvenkyns og spurningum um það hvort starfsfólk Hvíta hússins væri að breyta frásögninni svo það liti út fyrir að Trump hefði rétt fyrir sér. 

Í röð tölvupósta til Guardian staðhæfði starfsmaður Hvíta hússins þó að Conan væri karlkyns. Í gær fór áhugafólk um málið svo að rannsaka hvert hið sanna kyn hundsins væri, helst með því að rýna í klof hans. Eru flestir sammála um að þarna sé um tík að ræða. 


Í dag hélt Hvíta húsið sig þó við seinni frásögn sína af kyni Conans, hann væri karlkyns. Engar útskýringar hafa þó verið gefnar á ruglingnum. 

Frétt Guardian

mbl.is