„Mesti viðbjóður sem ég hef séð“

Sýnin, sem beið neðansjávarljósmyndarans og frístundakafarans Kim André Sund og …
Sýnin, sem beið neðansjávarljósmyndarans og frístundakafarans Kim André Sund og Ronald Tønnesen félaga hans, sem sést í bakgrunni á myndinni, í hafdýpinu utan við Suður-Mæri í Noregi á sunnudaginn, var allt annað en hugguleg, drukknaður skarfur fastur í svokölluðu vofuneti sem lagt hafði verið ofan við flak farþegaskipsins Øygard. Norskir sjófarendur hafa verið beðnir þess lengst allra orða að leggja ekki net sín yfir flökum sem flest eru kirfilega merkt á öll sjókort vegna hættunnar á að netin flækist í flökunum og haldi áfram að hrifsa allt kvikt í greipar ægis, hvort sem um hefðbundnar veiðitegundir eða aðrar sé að ræða. Ljósmynd/Kim André Sund

„Ég kafa býsna mikið hérna við ströndina við Suður-Mæri, hérna eru mörg skipsflök frá stríðsárunum en þó einnig nýrri. Í gær [sunnudag] vorum við að kafa við [farþegaskipið] Øygard sem var sökkt árið 1982 og í raun ætlað að vera dægradvöl kafara.“ Svo segist Kim André Sund, frístundakafara frá Valderøya utan við Ålesund í Mæri og Raumsdal við vesturströnd Noregs, frá í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Köfunarævintýri þeirra félaganna úr Frístundaköfunarklúbbi Ålesund (n. Ålesund sportsdykkerklubb), Sund og Ronald Tønnesen, fór þó öðruvísi en ætlað var þegar þeim mætti sú sjón sem seint líður köfunarfélögunum úr minni, dauður skarfur flæktur í það sem Norðmenn kalla vofunet (n. spøkelsesgarn) og er haft um gleymd eða horfin fiskinet sem verða eftir í hafdýpinu eftir að netabauja sekkur eða netið losnar af henni og eigandinn á þess engan kost að draga netið inn.

Ættu að vita betur

„Fiskimennirnir hér um slóðir ættu að vita betur en að leggja net yfir flaki,“ segir Sund og bætir því við að flakið af Øygard og flest flök á svæðinu séu kirfilega merkt inn á öll sjókort og allir sem sjósókn stunda viti að ekkert er auðveldara en að festa netin í flaki á hafsbotni.

Sund segir netið enn sinna sínu upprunalega hlutverki, það fangi dýr sem hætti sér of nærri fyrir forvitni sakir og fari þá ekki í tegundagreinarálit með fang sitt, jafnt fuglar, krabbar og fiskar verði fangar þess þar til yfir lýkur. „Þetta er mesti viðbjóður sem ég hef séð,“ segir kafarinn um fiskinetið og feng þess.

Hann segir þá félagana í kafaraklúbbnum áður hafa sent Sjávarútvegsstofnun Noregs (n. Fiskeridirektoratet) erindi vegna fiskineta í óskilum í hafdjúpunum úti fyrir Suður-Mæri. Stofnunin heldur úti eigin smáforriti, eða appi, sem býður sjófarendum upp á að skrá öll net sem þeir hafa glatað en að sögn Sund er netið yfir flakinu af Øygard ekki skráð þar. Að minnsta kosti fundu þeir félagar það ekki við ítarlega eftirgrennslan.

Norðmenn langt í frá saklausir

Sund, sem lagt hefur að baki 13 ára köfunarferil, og á í fórum sínum silfurpening frá Norðurlandamótinu í neðansjávarljósmyndun nú í ár, segir það daglegt brauð að þeir félagar rekist á plastúrgang og annað sorp í hafinu. Úrgang sem best væri geymdur annars staðar en í náttúrunni.

Kim André Sund, frístundakafari og verðlaunaður neðansjávarljósmyndari.
Kim André Sund, frístundakafari og verðlaunaður neðansjávarljósmyndari. Ljósmynd/Úr einkasafni

 

„Þetta er kannski verra í mörgum öðrum löndum, en við Norðmenn erum langt í frá saklausir. Á hafsbotninum hvíla margar gamlar syndir og þær munu hvíla þar lengi,“ segir Kim André Sund að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert