Rannsakar möguleikann á tölvuárásum á Bandaríkjamenn

Forsvarsmenn WhatsApp segjast hafa tilkynnt bandaríska dómsmálaráðuneytinu um spillibúnaðinn í …
Forsvarsmenn WhatsApp segjast hafa tilkynnt bandaríska dómsmálaráðuneytinu um spillibúnaðinn í maí á þessu ári, þegar þeir urðu hans fyrst varir og svo aftur í síðasta mánuði. AFP

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Ron Wyden, segist vera að rannsaka möguleikann á tölvuárásum á bandaríska ríkisborgara með eftirlitsbúnaði sem erlend eftirlitsfyrirtæki eins og ísraelska fyrirtækið NSO Group selja.

Hefur Guardian eftir Wyden að málið veki uppspurningar um „alvarlega þjóðaröryggisógn“.

Aðeins nokkrar vikur eru síðan forsvarsmenn WhatsApp samfélagsmiðilsins höfðuðu mál gegn NSO vegna áskana um að spillibúnaður þessa ísraelska fyrirtækis hafi verið notaður gegn 1.400 WhatsApp notendum í 20 löndum yfir 14 daga tímabil á þessu ári.

Í ákærunni segir að yfir 100 aðgerðasinnar í mannréttindamálum, blaðamenn, lögfræðingar og fræðimenn hafi verið meðal þeirra sem urðu fyrir árásinni og að minnsta kosti eitt bandarískt símanúmer með svæðisnúmer í Washington hafi verið meðal þeirra sem talin hafi verið í hættu.

Segjast forsvarsmenn WhatsApp hafa tilkynnt bandaríska dómsmálaráðuneytinu um málið í maí á þessu ári, þegar þeir urðu þess fyrst varir og svo aftur í síðasta mánuði. Fyrirtækið telji NSO hafa brotið lög, m.a. alríkislög um tölvusvik og misnotkun, sem notuð eru til að ákæra tölvuþrjóta.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hins vegar neitað að tjá sig um málið.

Sérhannaður til að virka ekki í Bandaríkjunum

NSO segist hins vegar selja njósnabúnaðinn Pegasus til stjórnvalda í erlendum ríkjum eingöngu með það markmið að berjast gegn glæpum og koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir.

„Við erum stolt af tækni okkar sem aðstoðar stjórnvöld við að bjarga mannslífum og tekur á áskorununum glæpa- og hryðjuverkamanna sem nota dulkóðaða skilaboðatækni,“ sagði talskona fyrirtækisins. Hugbúnaðurinn sé ennfremur sérhannaður til að virka ekki með bandarískum símanúmerum, eða innan bandarískra svæðisnúmera.

NSO hefur sætt vaxandi gagnrýni vegna ásakana um að búnaður fyrirtækisins sé notaður af stjórnvöldum í einræðisríkjum á borð við Sádi-Arabíu og öðrum ríkjum sem hafa slæmt orð á sér varðandi mannréttindamál til að fylgjast með þegnum sínum.

Wyden, sem á sæti í efnahagsnefnd öldungadeildarinnar, neitaði að tjá sig um WhatsApp málið, en lýsti yfir áhyggjum af „málaliðaverktökum“ og „erlendum tölvuþrjótum“ í neteftirlitsiðnaðinum sem gætu beint sjónum sínum að Bandaríkjamönnum.

„Séu erlend eftirlitsfyrirtæki eins og NSO að aðstoða erlend ríki við netárásir eða njósnir gegn Bandaríkjamönnum, sérstaklega bandarískum embættismönnum og verktökum stjórnarinnar, þá myndi það vekja áhyggjur um alvarleg þjóðaröryggismál,“ sagði Wyden.

Kvaðst hann hafa beðið bandaríska viðskiptaráðuneytið um frekari upplýsingar. Sjálfur sé hann svo að skoða málið og geri ráð fyrir að hafa meira um það að segja á næstu vikum.

mbl.is