Sviptur ríkisborgararétti vegna hryðjuverka

Liðsmenn vígasamtakanna Ríki íslams.
Liðsmenn vígasamtakanna Ríki íslams. AFP

Danska ríkisstjórnin hefur svipt ungan karlmann, sem hefur starfað með vígasamtökunum Ríki íslams, ríkisborgararétti sínum. Þetta er gert á grundvelli nýrra og umdeildra laga og búist er við því að fleiri fylgi í kjölfarið.

Maðurinn, sem er eftirlýstur fyrir aðild að hryðjuverkum, er fyrsti Daninn sem missir ríkisborgararétt sinn af þessari ástæðu, en lög þessa efnis voru nýverið samþykkt á danska þinginu. Lögin veita ríkisstjórninni rétt til þess að svipta þá Dani, sem t.d. hafa verið í Sýrlandi og barist með skilgreindum hryðjuverkasamtökum, vegabréfi sínu og öllum þeim réttindum sem danskir ríkisborgarar njóta að öllu jöfnu. Þetta er breyting á því sem áður var, þegar slíkar ákvarðanir voru á hendi dómstóla.

Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins, DR, segir að umræddur maður sé alinn upp í bænum Albertslund skammt frá Kaupmannahöfn og hafi gengið undir nafninu Abu Osman hjá vígasamtökunum Ríki íslams. Hann hefur tekið þátt í starfsemi samtakanna frá árinu 2013, síðan hann var 19 ára. 

Hann hefur verið eftirlýstur af dönsku lögreglunni fyrir hryðjuverk frá árinu 2016 og verið dæmdur í fangelsi í Danmörku í fjarveru sinni.

Í umfjöllun danska dagblaðsins Berlingske Tidende segir að maðurinn hafi undanfarið dvalið í Tyrklandi, en hann er einnig með ríkisborgararétt þar og hefur ítrekað sóst eftir að koma til Danmerkur og taka þar út sína refsingu fyrir þátttökuna í hryðjuverkasamtökunum. Dönsk yfirvöld hafa hafnað þeirri beiðni og einnig því að danskir lögreglumenn fari til Tyrklands og sæki hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert