Fékk bandorm á heila eftir át á lítið elduðu kjöti

Bandormar geta verið nokkrir millimetrar, en einnig tugir metra. Mynd …
Bandormar geta verið nokkrir millimetrar, en einnig tugir metra. Mynd úr safni. Ljósmynd/Wikipedia

Kínverskur byggingaverkamaður sem þjáðist af flogum reyndist vera með bandorm í heila. CNN fjallar um málið og segir grun um að maðurinn hafi fengið orminn með því að borða kjöt sem var of lítið eldað.

Það var fyrir um það bil mánuði síðan sem að Zhu, sem býr í Luzhou í austurhluta Zhejiang-héraðs keypti svína- og lambakjöt sem hann notaði í kryddaðan pottrétti, að því er fram kemur í skýrslu háskólasjúkrahússins í Zhejiang.

Nokkrum dögum síðar tók hann svo að finna fyrir svima og höfuðverk að degi til og fékk síðan flog sem svipuðu til flogaveiki að nóttu til.

Það voru samstarfsmenn Zhu sem sendu hann á spítala eftir að hafa fundið hann í flogakasti. Þar sýndi sneiðmynd sem tekin var af heila hans kalkmyndun inni í höfðinu og skemmdir á höfuðkúpunni. Zhu neitaði hins vegar frekari meðferð vegna kostnaðar og fór aftur heim.

Sjúkdómseinkennunum linnti hins vegar ekki og flogin héldu áfram. Hann fór því fyrir á háskólasjúkrahúsið þar sem læknar sendu hann nú í segulómun og var hann í kjölfarið greindur með bandorm á heila.

Eftir að hafa heyrt að Zhu hefði nýlega neytt pottréttar velta þeir nú fyrir sér hvort að bandormslirfur hafi mögulega verið að finna í svína- eða lambakjötinu, sem svo hafi ratað inn í meltingarveg Zhu.

Bandormslirfusýki getur greinst um heim allan þó algengast sé að …
Bandormslirfusýki getur greinst um heim allan þó algengast sé að hún finnist í dreifðari byggðum í löndum þar sem svín fá að ganga laus og þar sem hreinlæti getur verið ábótavant. AFP

„Ég snöggsteikti kjötið,“ er haft eftir Zhu í skýrslunni. „Botninn á pottinum var rauður út af kryddaða soðinu þannig að maður sá ekki hvort kjötið hafði verið eldað í gegn.“

Zhu náði fullum bata eftir að læknar fjarlægðu bandorminn, að því er fram kemur í skýrslunni og dró úr þrýstingi á heila hans.

Töldu fyrst um heilaæxli að ræða

Smitleiðin fyrir bandormslirfusýki í taugakerfinu, svo nefnda Neurocysticercosis, líkt og Zhu þjáðist af felur í sér að gleypt hafi verið bandormsegg sem áður hafa farið í gegnum hægðir einstaklings sem er með bandorm í þörmunum.

Lirfurnar skríða síðan úr eggi og smjúga inn í vöðva og heilavef, þar sem þær mynda blöðrur sem geta litið út eins og kalkmyndunin sem kom fram á sneiðmyndinni af heila Zhu. 

Bandormslirfusýki getur greinst um heim allan þó algengast sé að hún finnist í dreifðari byggðum í löndum þar sem svín fá að ganga laus og þar sem hreinlæti getur verið ábótavant samkvæmt upplýsingum frá bandarísku sóttvarnastofnuninni.

Tilfelli kom m.a. upp í New York í sumar þegar íbúi í borginni sá sýnir og varð áttavilltur. Töldu læknar í fyrstu um heilaæxli að ræða, eða þar til bandormsungi fannst í heila sjúklingsins.

mbl.is