„Morðingjar!

AFP

Ríkisstjórn Möltu riðar til falls samfara því að frekari upplýsingar birtast um tengsl embættismanna og ráðherra við morð á þekktri blaðakonu. Almenningur er reiður og gerði hróp að forsætisráðherra landsins: Morðingjar og mafía voru orð sem voru hávær við þinghúsið. 

Tveir ráðherrar í ríkisstjórn Möltu stigu til hliðar í gær skömmu eftir að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu steig til hliðar í tengslum við nýjar upplýsingar í rannsókn á morðinu á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia fyrir tveimur árum.

Ráðherra ferðamála, Konrad Mizzi, sagði af sér síðdegis í gær en um morguninn hafði forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, tilkynnt um afsögn ráðuneytisstjórans, Keith Schembri. Á sama tíma eykst reiði almennings í garð ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur staðið að rannsókn á árásinni sem kostaði blaðakonuna lífið í október 2017.

Forseti þingsins, Silvio Parnis, fylgist með fólkinu fyrir utan þinghúsið …
Forseti þingsins, Silvio Parnis, fylgist með fólkinu fyrir utan þinghúsið í gær. AFP

„Morðingjar!“ hrópuðu hundruð mótmælenda við þinghús eyjunnar og einhverjir köstuðu eggjum í Muscat en hann er sakaður um að hafa hindrað gang réttvísinnar með því að vernda nána bandamenn. 

„Mafía!“ æpti fólkið á forsætisráðherrann þegar honum er forðað undan æstum mótmælendum. 

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að Schembri hafi verið boðaður á fund lögreglu eftir að bent var á hann sem þann sem á mesta sök í málinu. Sá sem gerði það heitir Yorgen Fenech, maltneskur kaupsýslumaður sem var handtekinn á snekkju sinni fyrir helgi.

Fenech var að reyna að forða sér úr landi þegar hann var handtekinn og hefur hann óskað eftir sakaruppgjöf gegn því að upplýsa um það sem hann veit um málið. Hann var látinn laus gegn tryggingu í gær.

Grunur leikur á að Schembri hafi hvíslað því að Fenech að hann yrði handtekinn og því hafi hann ákveðið að flýja land. 

Muscat hefur neitað að upplýsa um hvað varð til þess að Schembri ákvað að segja af sér og að of snemmt væri að vera með getgátur.

AFP

Nokkrum klukkustundum síðar greindi Mizzi blaðamönnum frá því að honum bæri skylda til að láta af embætti og veita ríkisstjórninni svigrúm til að ljúka kjörtímabilinu. 

Sama dag tilkynnti ráðherra efnahagsmála, Chris Cardona, að hann léti af embætti ráðherra vegna rannsóknarinnar. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Adrian Delia, sagði á þingi í kjölfarið að staða Muscats væri óbærileg því aðgerðir hans miðuðu að því að vernda bandamenn sína. 

Caruana Galizia var afar vinsæl og þekkt fyrir störf sín, bæði sem blaðamaður og bloggari og oft nefnd „einnar konu Wikileaks“. 

Hún hafði sakað Schembri og Mizzi um aðild að spillingarmálum en þeir neituðu ásökunum hennar. Eins hafði hún greint frá heimsókn cardona í þýskt vændishús á meðan hann var í opinberum erindagjörðum í Þýskalandi. Hann hafði höfðað skaðabótamál gegn henni skömmu áður en hún lést í bílsprengjuárás.

Stór hluti af vinnu Caruana Galizia tengdist Panama-skjölunum svonefndu. Þar var upplýst um spillingu í æðstu lögum Möltu og tengsl stjórnmálamanna við kaupsýslumenn. Þar á meðal fyrirtæki sem var skráð í Dubai, 17 Black. Meðal gagna í Panama-skjölunum voru upplýsingar um fyrirtæki sem voru í eigu Schembri og Mizzi fengu greiðslur frá 17 Black en síðar kom í ljós að það fyrirtæki var í eigu Fenech. Hann hefur meðal annars fjárfest í orkugeiranum og ferðaþjónustu. 

Blaðamenn án landamæra, RSF, greindu frá því í gær að fjárlegir hagsmunir ráðherra í ríkisstjórn Möltu bentu til alvarlega hagsmunaárekstra og varaði við afleiðingunum af því að forsætisráðherrann væri sá eini sem mætti ræða við fjölmiðla á meðan rannsókn stæði yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert