Krímskagi hluti af Rússland í kortum Apple

Sé Krímskagi skoðaður á landakortum Apple í Rússlandi, virðist hann …
Sé Krímskagi skoðaður á landakortum Apple í Rússlandi, virðist hann rússneskur. Ef hann er skoðaður með sama appi í Frakklandi tilheyrir hann engu ríki. AFP

Bandaríski tæknirisinn Apple hefur orðið við kröfum rússneskra ráðamanna um að Krímskagi, sem Rússar tóku af Úkraínu og innlimuðu í Rússland árið 2014, birtist sem rússneskt svæði í öppum fyrirtækisins.

AFP-fréttaveitan greinir frá og segir skagann, sem er við Svarta hafið og stærstu borgirnar þar Sevastopol og Simferopol nú birtast sem rússnesk svæði þegar þau eru skoðuðu á landa- og veðurkortum Apple í Rússlandi.

Sé svæðið hins vegar skoðað með sömu öppum í Frakklandi þá virðist Krímskaginn ekki tilheyra neinu ríki.

Rússnesk stjórnvöld og Apple hafa átt í viðræðum um málið um nokkurra mánaða skeið. Segir AFP Apple upphaflega hafa reynt að sýna Krímskagann sem óskilgreint svæði með því að fjarlægja allar tilvísanir í Úkraínu.

Það var svo eftir fund Vasily Piskaryov, yfirmanns öryggis- og spillingarmálanefndar rússneska þingsins og Darya Yermolina, fulltrúa Apple í Rússlandi, sem ákvörðun var tekin. Lofaði Piskaryov fyrirtækið í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir að hlíta rússnesku stjórnarskránni.

Forsvarsmenn Apple hafa ekki tjáð sig um málið.

Þess má geta að tæknirisinn Google skilgreinir Krímskaga hvorki sem hluta Rússlands né Úkraínu á kortum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert