Trump neitar að hafa sent Giuliani til Úkraínu

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti neitaði því í gær alfarið að hafa skipað einkalögfræðingi sínum Rudy Giuliani að fara til Úkraínu og óska eftir rannsókn fyrir sína hönd.  Þetta fullyrti Trump í viðtali við Bill O‘Reilly, íhaldssaman þáttastjórnanda.

CNN segir Trump þar með kominn í mótsögn við vitnisburði starfsmanna Hvíta hússins og ríkisstjórnar sinnar, sem og við sjálfan sig samkvæmt orðum sem hann lét falla í símtali sem hann átti við Volodymir Zelenskí Úkraínuforseta í lok júlí.

Vitnaleiðslur hafa undanfarnar vikur staðið yfir í full­trúa­deild Banda­ríkjaþings vegna rann­sókn­ar þings­ins á embætt­is­verk­um forsetans.

O'Reilly spurði Trump, áður en hann kom fram á fundi með stuðningsmönnum sínum á Flórída, hvort hann hefði stjórnað afskiptum Giulianis af Úkraínumálinu. „Nei,“ sagði Trump og hóf því næst langa lofræðu um Giuliani sem hann kallaði „mikinn baráttumann gegn spillingu“ og „frábærasta borgarstjóra New York“.

O'Reilly spurði þá forsetann aftur: „Giuliani er einkalögfræðingur þinn, skipaðir þú honum ekki að fara til Úkraínu til að gera eitthvað eða auka þrýstinginn á þá?“ „Nei ég skipaði honum það ekki, en hann er vígamaður. Rudy er vígamaður,“ sagði Trump. „Rudy fór, mögulega sá hann eitthvað. Þú verður hins vegar að átta þig á að hann er líka með aðra skjólstæðinga.“ Bætti forsetinn því næst við að Giuliani hafi „unnið í Úkraínu um árabil.“

„Það væri frábært ef þú ræddir við hann“

Í eftirriti sem birt hefur verið af símtali Trump við Zelenskí þrýstir hann hins vegar ítrekað á um aðild Giulianis.

„Giuliani er mjög virtur maður. Hann var borgarstjóri New York og frábær borgarstjóri. Ég myndi vilja að hann hringdi í þig. Ég mun biðja hann að hringja í þig með dómsmálaráðherranum. Rudy er mjög með á nótunum um hvað er að gerast og er mjög hæfur maður. Það væri frábært ef þú ræddir við hann,“ segir Trump í símtalinu.

Hann segist síðan munu láta Giuliani hringja í Zelenskí, auk þess sem hann muni hringja í William Barr, dóms­málaráðherrann til að komast til botns í málinu.

Hann nefnir lögfræðinginn svo í þriðja skipti á nafn í símtalinu þegar hann kveðst munu fá þá Barr til að hringja í Zelenskí.

„Forsetinn má nota þá sem hann vill“

Rannsókn þingsins snýr að því hvort að Trump hafi þrýst á úkraínsk stjórnvöld að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, til rannsóknar.

Hátt settir starfsmenn bandarísku utanríkisþjónustunnar hafa borið vitni um að Giuliani hafi átt þátt í máli og þá sagði Mick Mulvany, settur starfsmannastjóri Hvíta hússins, á fundi með fréttamönnum í síðasta mánuði að forsetinn mætti fá þá til verka sem hann vildi.

„Ykkur kann að mislíka að Giuliani hafi átt þátt í þessu. Það er gott og í lagi, en það er ekki ólöglegt og er ekki embættisbrot,“ sagði Mulvaney. „Forsetinn má nota þá sem hann vill.“

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu, sagði í vitnisburði sínum í síðustu viku að Trump hefði gert honum að setja sig í samband við Giuliani varðandi samskipti Bandaríkjanna og Úkraínu. „Þetta olli okkur vonbrigðum, en það var skipun forsetans að við nýttum Giuliani,“ sagði Sondland og gaf í skyn að ekkert yrði af tilraun til að koma á fundi forsetanna tveggja nema orðið yrði við skipun Trumps um aðild Giulianis.

mbl.is