Forseti Súrínam dæmdur í 20 ára fangelsi

Forseti Súrínam, Desi Bouterse, á göngu með forseta Kína, Xi …
Forseti Súrínam, Desi Bouterse, á göngu með forseta Kína, Xi Jinping, í opinberri heimsókn þar í landi. Á meðan var hann dæmdur fyrir manndráp í heimalandinu. AFP

Herréttur í Súrínam dæmdi forseta landsins, Desi Bouterse, í dag í 20 ára fangelsi fyrir aftökur pólitískra andstæðinga þegar hann var einræðisherra á níunda áratug síðustu aldar, að því er fram kemur í frétt AFP. Súrínam er á norðausturströnd Suður-Ameríku og á meðal annars landamæri að Brasilíu. Áður var landið nýlenda Hollendinga, Hollenska Gvæjana. 

Bouterse, sem er 74 ára gamall, er í opinberri heimsókn í Kína og hyggst áfrýja dómnum þegar hann kemur heim í næstu viku, að sögn lögmanns hans. 

Bouterse hefur í tvígang leitt byltingu í landinu og verið forseti í tvö kjörtímabil, auk þess að hafa verið dæmdur fyrir eiturlyfjasölu. Hann hefur verið fyrirferðamikill í stjórnmálum í landinu frá því að hann náði fyrst völdum þar í valdaráni hersíns árið 1980. 

Forsetinn var nú dæmdur fyrir svokölluð desember-dráp, en í desember 1982 drápu stjórnvöld í landinu 13 almenna borgara og tvo yfirmenn í hernum og hefur þetta að sögn AFP löngum varpað skugga á stjórn Bouterse, sem hefur ávallt neitað aðkomu að drápunum. 

mbl.is