Gömul ummæli Johnsons um einstæðar mæður dregin fram

Boris Johnson leggur mikla áherslu á að klára Brexit en …
Boris Johnson leggur mikla áherslu á að klára Brexit en vill ekki blanda fjölskyldu sinni í kosningabaráttuna. AFP

25 ára gömul tímaritsgrein Boris Johnsons hefur verið dregin fram í dagsljósið í kosningabaráttunni í Bretlandi. Þar lýsti hann einstæðum mæðrum sem „óábyrgum“.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, var í gær gestur á LBC-útvarpsstöðinni þar sem hlustendur gátu hringt og spurt hann spurninga í beinni útsendingu. Hlustandi, sem sagðist heita Ruth og væri einstæð móðir, vitnaði í grein tímaritsins Spectator. Hún sagðist ekki vera sátt við það sem Johnson hafði þar skrifað og spurði hvers vegna hann væri hikandi við að tjá sig um sína eigin fjölskyldu.

Johnson sagðist ekki vilja sýna henni óvirðingu eða neinum öðrum. „Þetta eru 25 ára ummæli sem skrifuð voru áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum,“ sagði hann og ýjaði að því að tilvitnunin hefði verið slitin úr samhengi. Um væri að ræða enn eina tilraun Verkamannaflokksins til að klína einhverju neikvæðu á hann til að beina athyglinni frá því að þeir hefðu enga áætlun um að yfirgefa Evrópusambandið.

Greint er frá þessu á vef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar. Þar kemur fram að umrædd Ruth hafi spurt hann hvers vegna hann tjái sig um börn annarra en aldrei um sín eigin. Þáttastjórnandinn, Nick Ferrari, bætti við og spurði forsætisráðherrann hvort hann tæki að fullu þátt í uppeldi allra barna sinna. Johnson sagðist elska börn sín afar mikið en þau væru ekki að bjóða sig fram í kosningum. „Ég ætla ekki að ota þeim út á forað þessarar kosningabaráttu þegar ég veit að fólk vill frekar heyra hverjar áætlanir mínar eru fyrir landið,“ sagði Johnson.

Breski forsætisráðherrann hefur ítrekað verið spurður um einkalíf sitt, þar á meðal hversu mörg börn hann eigi. Angela Rayner, þingmaður Verkamannaflokksins, segir algjöra skömm að því að Johnson hafi neitað að biðjast afsökunar á „hatursfullum ummælum sínum“.

Framundan er blaðamannafundur í London síðar í dag þar sem Johnson ætlar að kynna útgönguleið Brexit sem hann segir leysa úr læðingi ávinning Bretlands af að ganga úr Evrópusambandinu. Hann varar við að Brexit verði tafið, útþynnt eða hafnað ef Íhaldsflokkurinn nái ekki meirihluta í þingkosningunum 12. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert