Drottningin lofsamar hetjudáð borgara

London Bridge í dag.
London Bridge í dag. AFP

Engir Íslendingar hafa leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna hryðjuverkaárásarinnar í Lundúnum í gær. Ráðuneytið hefur hvatt þá sem staddir voru í borginni í gær að láta aðstandendur vita af sér. 

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að engir hafi enn haft samband við borgaraþjónustuna. Vitað er um að minnsta kosti einn Íslending sem var staddur nærri London Bridge þegar árásin varð í gær, en mbl.is ræddi við Einar Örn í gær sem varð vitni að atburðarrásinni. 

Drottningin vottar samúð sína 

Bretlandsdrottning vottaði fjölskyldum hinna látnu samúð sína í yfirlýsingu frá Buckinghamhöll og þakkaði hún viðbragðsaðilum og „hugrökkum einstaklingum sem lögðu líf sitt í hættu til að vernda aðra“. 

Árásarmaðurinn, hinn 28 ára gamli Usman Khan, var á reynslulausn úr fangelsi, en hann hafði áður verið sakfelldur fyrir hryðjuverk. Var hann látinn laus úr haldi í desember á síðasta ári. Khan var undir rafrænu eftirliti og bar ökklaband þegar hann framdi ódæðisverkið í gær, en tveir almennir borgarar létust auk Khan. 

Árásin hófst rétt fyrir klukkan tvö eftir hádegi í gær við norðurenda London Bridge, en þar fór fram ráðstefna um endurhæfingu fanga á vegum Cambridge-háskóla. Khan var á ráðstefnunni auk annarra fyrrverandi fanga og nemenda. 

Árásarmaðurinn Usman Khan.
Árásarmaðurinn Usman Khan. AFP

Karlmaður og kona létust í árásinni og þrír eru slasaðir, einn karlmaður og tvær konur. Ástand þeirra er talið vera stöðugt en þau fá enn aðhlynningu á sjúkrahúsi. Samkvæmt BBC reynir lögregla nú að bera kennsl á hin látnu. 

Yfirbuguðu árásarmanninn 

Viðbrögð almennra borgara sem náðu að yfirbuga árásarmanninn þar til lögregla mætti á vettvang hefur verið lofað, meðal annars af forsætisráðherranum Boris Johnson og leiðtoga breska verkamannaflokksins Jeremy Corbyn. 

Í myndbandi af atvikinu má sjá hvernig gangandi vegfarendur halda Khan niður, á meðan jakkafataklæddur maður hleypur í burtu frá honum og heldur á því sem virðist vera eggvopn. 

Einn þeirra sem brást við árásinni og hjálpaði til við að yfirbuga Khan er dæmdur morðingi sem var viðstaddur viðburðinn um endurhæfingu fanga, en hann hafði fengið dagsleyfi úr fangelsi. James Ford, 42, var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2004 fyrir morðið á Amöndu Champion, 21 árs gamalli þroskahamlaðri konu. 

Flaggað í hálfa stöng

Boris Johnson kallaði til neyðarfundar hjá hinni svokölluðu Cobra-nefnd ríkisstjórnarinnar vegna árásarinnar. Hann hrósaði viðbragðsaðilum og vitnum sem skárust í leikinn og sagði að hann hefði „lengi haldið því fram að það séu mistök að leyfa ofbeldisfullum glæpamönnum að fara úr fangelsi snemma“.

Boris Johnson forsætisráðherra mætti á London Bridge í dag til …
Boris Johnson forsætisráðherra mætti á London Bridge í dag til að votta samúð sína. AFP

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, sagðist vera „agndofa yfir hugrekki venjulegra Lundúnabúa,“ sem náðu að yfirbuga árásarmanninn. 

Í viðtali við BBC sagði borgarstjórinn að lögreglumönnum á götum borgarinnar myndi fjölga yfir helgina og bætti við að það væri gert til þess fullvissa borgara, en ekki vegna yfirvofandi hættu. 

Búist var við því að kosningabarátta vegna fyrirhugaðra almennra kosninga í Bretlandi 12. desember héldi áfram í dag, en stjórnmálaflokkar hafa þrátt fyrir það aflýst viðburðum sínum í dag vegna árásarinnar. Þá er flaggað er í hálfa stöng við opinberar byggingar í Lundúnum í dag. mbl.is