Kvarta undan kosningasvindli í Namibíu

Kjósendur í Namibíu í röð á kjörstað í vikunni.
Kjósendur í Namibíu í röð á kjörstað í vikunni. AFP

Tveir stjórnarandstöðuflokkar í Namibíu hafa kvartað undan meintu kosningasvindli í forseta- og þingkosningum sem haldnar voru í landinu í vikunni. Segja flokkarnir að svindlið hafi tafið fyrir því að tilkynnt verði um lokaniðurstöður, sem enn hefur ekki verið gert.

Sitjandi forsetinn Hage Geingob hefur samkvæmt yfirvöldum fengið rúmlega 56% talinna atkvæða.

Formaður kjörnefndar, Notemba Tjipueja, hefur kallað eftir þolinmæði landa sinna en á sama tíma hefur Geingob þakkað kjósendum fyrir að tryggja sér áframhaldandi setu í embætti.

Geingob hefur verið forseti landsins í eitt kjörtímabil.
Geingob hefur verið forseti landsins í eitt kjörtímabil. AFP

Verið við völd frá 1990

Geingob, sem er 78 ára, hefur gegnt forsetaembættinu í eitt kjörtímabil en vinsældir hans hafa minnkað meðal ungs fólks vegna mikils atvinnuleysis og versnandi lífskjara. Óánægjan hefur verið vatn á myllu Panduleni Itula, 62 ára fyrrverandi tannlæknis, sem er í SWAPO en býður sig fram sem óháð forsetaefni.

SWAPO hefur verið við völd í Namibíu frá því að landið fékk sjálfstæði frá Suður-Afríku árið 1990 og flokkurinn hefur verið með tvo þriðju sæta á þingi landsins frá 1994. Flokkur Venaanis, Lýðræðishreyfingin, hefur ekki átt upp á pallborðið hjá kjósendunum vegna tengsla hans við stjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku áður en Namibía fékk sjálfstæði. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir eru veikir og sundraðir vegna deilna milli þjóðernishópa.

Alþjóðabankinn spáði efnahagsbata í Namibíu í ár en sú spá rættist ekki og samdrátturinn hélt áfram á fyrri helmingi ársins. Hann hófst vegna lágs verðs á útflutningsvörum Namibíu og óvenju mikilla þurrka í landinu. Skuldir ríkisins jukust en Geingob hélt áfram að auka útgjöldin og fjölga ríkisstarfsmönnum. Stjórnarandstæðingar hafa sakað hann um að búa aðeins til vinnu í ráðuneytunum handa félögum sínum í stjórnarflokknum.

Afsagnir vegna mútumáls

Traustið á Geingob minnkaði fyrr í mánuðinum þegar WikiLeaks birti gögn sem bentu til þess að embættismenn stjórnarinnar hefðu þegið mútur frá íslenska sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja og tveir ráðherrar hennar sögðu í kjölfarið af sér vegna málsins. Forsetinn hefur haldið því fram að uppljóstrunarvefurinn hafi birt gögnin svo skömmu fyrir kosningarnar til að skaða stjórnarflokkinn.

mbl.is